Af og til birtast greinar í blöðunum þar sem spurt er með þjósti, en jafnframt af töluverðri spaugsemi að mati höfundar, hvort yfirfrakki Íslendinga sé úr stáli og með drif á öllum hjólum. Yfirleitt fylgja með glósur um að menn séu jafnvel með tvo ef ekki þrjá bíla á heimili svona eins það teljist sérstakur glæpur. Þessir greinarhöfundar segja „blikkbeljueigendum“ einnig að slaka á í lífsgæðakapphlaupinu en eiga bágt með að slaka á vegna bíls nágrannans. Í þessum hópi, sem sér einkabílinn með horn og hala, er einstaka harðsnúinn hjólreiðamaður sem bendir bíleigendum á að hjóla í vinnuna enda sé það bæði heilsusamlegt og spari fé. Hjólreiðamaðurinn getur yfirleitt ekki stillt sig um að geta þess að aðstæður hér til hjólreiða séu afar slakar og menn neyðist til að hjóla eftir akbrautum innan um stórhættulega og mengandi umferðina og er þetta væntanlega sérstakur rökstuðningur við þá fullyrðingu að hjólreiðar séu heilsusamlegar.
Flestir höfundar hatursbréfa til bíleigenda hljóta þó að vera afar heimakærir, vinna heima við og neita börnum sínum um þátttöku í íþróttaæfingum og öðrum tómstundum sem krefjast þess að þau séu ferjuð milli bæjarhluta. Þeir hafa væntanlega einnig of hátt kaup og geta því sleppt því að gera stórinnkaup í stórum ódýrum verslunum. Einkabíllinn er raunar sérstaklega mikilvægur fyrir þá sem hafa ekki ennþá getað eignast bíl af því að skattar eru svo háir, þ.e. láglaunafólk. Möguleikarnir á hagstæðum innkaupum til heimilisins, góðri vinnu, menntun, tómstundum og einkalífi aukast svo gríðarlega við það að eignast einkabíl að þeir stjórnmálamenn sem tala mest um að bæta kjör láglaunafólks og að jafna tækifæri þess til menntunar ættu að berjast gegn bifreiðasköttum af öllum mætti.
Einkabíllinn er ekki aðeins praktískt tæki fyrir letingja, eins og andstæðingar hans halda fram, heldur eykur hann sjálfstæði manna. Við erum ekki bundin af vinnu á ákveðnum stað eða af því að búa nálægt vinnu. Einkabíllinn eykur því líkurnar á því að hæfileikar manna nýtist, jafnvel þótt það þurfi að gerast fjarri heimilum þeirra. Fyrir daga bílsins voru menn bundnir við vinnu við túnfótinn heima og nánasta umhverfi. Einkabíllinn er menntatæki. Einkabíllinn gefur fólki færi á að kynnast nýjum stöðum, allt frá fjalli ofaní fjöru, eins og þeir sem hafa farið í sunnudagsbíltúr þekkja. Hann gerir fólki einnig kleift að sækja hvers kyns sýningar, kvöldnámskeið og viðburði. Menn geta valið það sem þeir hafa áhuga á og farið þangað þegar þeim hentar. Einkabíllinn tengir kynslóðirnar saman þegar amma og afi norður í landi eru heimsótt. Einkabíllinn tryggir mönnum einnig frið með sitt einkalíf utan heimilisins.
Höfundar hatursbréfa til bíleigenda benda sigri hrósandi á umferðarteppur á álagstímum. En þessar teppur eru einmitt til marks um sigurför einkabílsins. Léleg umferðarmannvirki og skattaeinelti koma ekki í veg fyrir að fólk taki þá ákvörðun að fá sér einkabíl. Sveigjanleikinn, sem einkabíllinn býður upp á umfram aðra kosti, gerir hann að fyrsta kosti hjá flestum. Framlög hins opinbera til vegagerðar eru aðeins brot af því sem bíleigendur greiða í skatta, sem eru m.a. notaðir til að niðurgreiða óhentugar og illa nýttar almenningssamgöngur. Bíleigendur myndu taka því fegins hendi að greiða beint fyrir notkun á vegum í stað þess að pólitíkusar hafi milligöngu um það. Þá yrðu lagðir vegir þar sem eftirspurn er eftir þeim en ekki þar sem pólitíkusar telja heppilegt að bora eða brúa fyrir næstu kosningar. Umferðarhnútar eru aðeins dæmi um biðröð sem hlýst af pólitískri skömmtun.