„Við verðum að gera okkur grein fyrir að fæðingarorlof feðra þýðir einfaldlega nýjar álögur á atvinnulífið sem við metum til eins prósents launahækkunar,“ sagði Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í DV á föstudaginn. Það er að renna upp fyrir mönnum að ef fyrirhugaðar breytingar á fæðingarorlofi verða að veruleika, mun það leiða til mikillar útgjaldaaukningar fyrir ríkissjóð og slík aukning þýðir á endanum aðeins eitt: mikla skattahækkun. Líklega þarf að leita áratugi aftur í tímann til að finna sambærilega skattahækkun og hlýtur það að vera umhugsunarefni fyrir Geir Haarde og stuðningsmenn hans að það sé Geir sem taki að sér að leggja þessar dæmalausu álögur á almenning. Það er engin smáákvörðun að leggja 2500 milljónir í viðbótarskatt launafólk á hverju ári til eilífðarnóns. Tvo og hálfan milljarð króna á hverju einasta ári. Til eilífðar. Ætli fjármálaráðherra geti nefnt nokkurt dæmi um aðra eins útgjaldaþenslu hjá ríkissjóði á lýðveldistímanum. Það má jafnvel spyrja að því hvort dæmi séu um aðra eins skattahækkun frá því tíundin var lögð á landslýð.
Eins og bent var á hér í VÞ fyrir viku þarf hver launþegi að greiða um 17 þúsund krónur á ári eða 1500 krónur á mánuði allan sinn starfsferil vegna hinna fyrirhuguðu breytinga. Einstaklingur sem leggur 1500 krónur á mánuði fyrir á 40 ára starfsferli og fær 6% vexti á 2,8 milljónir króna við lok hans. Eins og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins bendir á samsvarar þetta um 1% af launum. Launþegar verða því af þessari kauphækkun. Hún fer í aukin ríkisútgjöld.
Raunar er það afar einkennilegt hvernig fjármálaráðherra hefur reynt að breiða yfir það að um aukin útgjöld ríkisins sé að ræða. Hann hefur þá vísað til þess að hinar 2500 milljónir króna eigi að koma á hverju ári úr Atvinnuleysistryggingasjóði! Eins og atvinnuástandið er í dag er staða sjóðsins ágæt og á hann um 5 milljarða króna. Um þessa milljarða sagði hins vegar Jóngeir Hlinason deildarstjóri hjá sjóðnum: „Við liggjum þó ekki á öllum þessum milljörðum heldur eru þeir í ríkissjóði og úr honum fáum við greitt eftir þörfum“. Geir Haarde ætlar því ekki að taka hinar 2500 milljónir árlega úr ríkissjóði heldur sjóði sem er í ríkissjóði! Og svo er eins og sumir haldi að peningar í Atvinnuleysistryggingasjóði komi ekki frá nokkrum manni, sjóðurinn vinni kannski bara peningana úr andrúmsloftinu. Ef Atvinnuleysistryggingarsjóður hefur meira fé en hann þarf til að sinna verkefni sínu, þá blasir við að lækka ber gjöld sem greidd eru til hans. Það er vitaskuld misnotkun á sjóðum sem slíkum, ef þeir eru notaðir til að fela það þegar stjórnmálamenn hyggjast fjármagna fokdýr hugðarefni sín með nauðungargjöldum en þora ekki að segja beint út að þeir séu að kalla á gríðarlegar álögur á alla landsmenn.