Helgarsprokið 9. apríl 2000

100. tbl. 4. árg.

Á þriðjudaginn kynntu þrír ráðherrar hugmyndir þess efnis að auka útgjöld hins opinbera um 2500 milljónir króna á ári með því að lengja lögbundið fæðingarorlof um 3 mánuði og tengja bætur fyrir barneignir við laun. Allt tal um aðhald í ríkisfjármálum og nauðsyn þess að sporna við þenslunni virðist hafa verið hjóm eitt þegar fjármálaráðherra tekur sig til og skrifar undir svo háa ávísun á ríkissjóð. Þetta er líklega mesta skattahækkun síðustu 10 ára og því ekki furða að fjármálaráðherra hefur reynt að breiða yfir þá staðreynd að um aukin útgjöld ríkisins sé að ræða. Laumast verður á bak við skattgreiðendur og seilst í vasa þeirra eftir þessum 2500 milljónum króna. Nota á hluta tryggingargjalds, sem fyrirtæki greiða sem launaskatt í atvinnuleysistryggingasjóð, til að greiða fólki fyrir að fara út af vinnumarkaði þar sem mannekla er nú. Ef harðnar á dalnum verður því minna til skiptanna fyrir atvinnulausa eða auka þarf framlög ríkisins til sjóðsins með tilheyrandi skattahækkunum. Til að setja þessar 2500 milljónir í samhengi þá munu þær leggjast á þá sem eru að vinna, en á vinnumarkaði í dag eru um 160 þúsund manns. Hver þeirra þarf því að greiða um 17 þúsund krónur á ári eða 1500 krónur á mánuði allan sinn starfsferil vegna hinna auknu bóta til þeirra sem kjósa að eignast börn. Einstaklingur sem leggur 1500 krónur á mánuði fyrir á 40 ára starfsferli og fær 6% vexti á 2,8 milljónir króna við lok hans.

Það er einnig rangt að tala um „rétt“ foreldra til fæðingarorlofs. Í rétti felst það að fá að vera í friði fyrir öðrum með sín mál svo lengi sem maður skiptir sér ekki af öðrum með ofbeldi eða yfirgangi. Fæðingarorlofið verður fjármagnað með valdbeitingu ríkisins, skattheimtu. Skattar verða teknir af öllum til að færa sumum. Fæðingarorlofið byggist því á órétti og órökrétt að tala um rétt í þessu sambandi.

Verði þessum hugmyndum hrint í framkvæmd er þó ekki aðeins verið að auka útgjöld hins opinbera og hækka skatta á landsmenn í lengd og bráð heldur felst í þeim enn frekari mismunun en þó er til staðar í núverandi lögum um fæðingarorlof. Þessi mismunun felst í því að skattleggja þá enn frekar, sem vilja ekki eignast börn, eru nýbúnir að því, geta það ekki eða eru orðnir of rosknir til þess, til að styrkja þá sem taka þá ákvörðun að eignast börn sér til lífsfyllingar. Hvers vegna eiga barnlausir að strita á vinnustöðum fyrir orlofi vinnufélaga sinna sem taka ákvörðun um að eignast börn? (Við þetta má svo auðvitað bæta að barnlausir niðurgreiða dagvistun, skólagöngu, heilsugæslu o.s.frv. fyrir börnin allt frá því þau koma í heiminn á fæðingardeildinni og er skellt í galla með áletruninni „eign þvottahúss ríkisspítalanna“). Það er afar hæpið að hið opinbera skipti sér af því hvaða ákvarðanir fólk tekur um þessi mál og verðlauni eina hegðun er sekti menn fyrir aðra. Kínverski kommúnistaflokkurinn hefur að vísu gert þetta um árabil þó undir öfugum formerkjum sé. Þar er þetta einnig gert í nafni þjóðhagslegrar hagkvæmni, en hæpið er að líta til þeirrar fyrirmyndar.

Barn sem á aðeins eitt foreldri eða annað foreldri er víðs fjarri mun svo aðeins njóta ríkisstyrktra samvista við foreldri sitt í 6 mánuði en ekki 9 eins og börn sem njóta beggja foreldra sinna. Ríkið hyggst ákveða hvernig foreldrar mega skipta hina lengda niðurgreidda orlofi með sér, þrír mánuðir hvort og svo þrír mánuðir náðarsamlegast til ráðstöfunar að eigin vali. Frumvarpið er því augljóslega ekki hugsað út frá hagsmunum barnsins heldur ber það öll merki þess að vera niðurstaða úr þrasi um jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði en núverandi fæðingarorlofskerfi felur í sér sérstaka hóprefsingu fyrir konur á vinnumarkaði. Til að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði er hóprefsing kvenna ekki afnumin, með því að fella niður lögbundna niðurgreiðslu skattgreiðenda á fæðingarorlofi, heldur verður körlum einnig refsað á sama hátt! Það vekur svo athygli að Sjálfstæðisflokkurinn skuli standa að hugmyndum sem þessum en landsfundur flokksins hafnaði því algjörlega. Eins og rakið er í pistli eftir Björgvin Guðmundsson varaformann Heimdallar á frelsi.is í fyrradag kolfelldu landsfundarfulltrúar tillögu um að breyta fæðingarorlofinu með þeim hætti sem nú er stefnt að.