Laugardagur 8. apríl 2000

99. tbl. 4. árg.

Því er stundum haldið fram að reglur séu nauðsynlegar til að draga úr mengun. Á það er einnig bent að verulega hefur dregið úr loftmengun víða á Vesturlöndum eftir að reglur um útblástur voru hertar um 1970. Þessari jákvæðu þróun (þ.e. minni mengun) í Bandaríkjunum og í Reykjavík voru meðal annars gerð skil í pistli hér í VÞ fyrir skömmu en þar kom m.a. fram að samkvæmt skýrslu Jóns Benjamínssonar hjá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur er útblástursmengun frá bílum minnkandi vandamál hér í Reykjavík en aukin mengun er frá ryki sem m.a. þyrlast upp af götunum við akstur. Með öðrum orðum hafa bíleigendur bætt sig með aðstoð frá bíla- og eldsneytisframleiðendum en borgaryfirvöldum hefur ekki tekist að halda götunum nægilega hreinum til að koma í veg fyrir rykmengunina. Á það var einnig bent í þessum pistli að nauðsynlegt væri að lækka skatta á bíla til að auðvelda fólki að skipta gömlum mengandi skrjóðum út fyrir nýja og eyðslugrennri. Í vikunni var komið að nokkru leyti til móts við þetta sjónarmið með breytingu á lögum um vörugjöld af bifreiðum.
Ef til vill furðar einhver sig á því að fjölmiðlar hafi ekki gert þessari jákvæðu þróun um ástand loftsins í Reykjavík skil en þeir virðast af einhverjum ástæðum aðeins hafa áhuga á neikvæðum fréttum af umhverfinu, svonefndum heimsendaspám sem umhverfisverndarsamtök senda frá sér í fjáröflunarskyni.

Í nýlegri bók Clearing the Air: The Real Story of the War on Air Pollution eftir Indur Goklany er reynt að meta að hvort þessi jákvæða þróun í Bandaríkjunum sé alfarið hertum reglum stjórnvalda í Washington D.C. að þakka. Í stuttu máli kemst höfundurinn, sem starfað hefur fyrir umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna (EPA) og verið forstöðumaður hjá alríkisnefnd um loftgæði (NCAQ), að þeirri niðurstöðu að hin jákvæða þróun hafi hafist löngu fyrir setningu laga um hreint loft (Clean Air Act) árið 1970. Goklany hefur viðað að sér gögnum frá fyrstu 70 árum aldarinnar til leggja mat á þetta. Þessi niðurstaða hans kemur svo sem ekki á óvart þar sem kröfur um umhverfisgæði eins og hreint loft vaxa þegar fólk efnast og hefur tíma og fé til að huga að öðrum þörfum en brýnustu lífsnauðsynjum. Bók Goklanys fæst hjá útgefandanum CATO Institute.