Spegillinn heitir þáttur sem ríkisútvarpið sendir út eftir kvöldfréttir hvern virkan dag. Pistlahöfundar þessa þáttar virðast ekki alltaf leggja sig sérstaklega fram um að gæta þess hlutleysis sem ætlast er til af starfsmönnum ríkisútvarpsins. Þess í stað koma skoðanir þeirra iðulega fram og verður að segjast eins og er að veruleg vinstri slagsíða er á þættinum. Eitt dæmi um þetta er umfjöllun pistlahöfundar Spegilsins um lækkun gjalda á bifreiðar, en í þeim pistli leyndi sér ekki að höfundur hans var lítt hrifinn af þessari gjaldalækkun og dró hann fram flest það sem neikvætt mátti finna. Í lokin fullyrti hann svo að þeir einir mundu græða á þessari breytingu sem hefðu hvort eð er efni á bíl sem kostaði yfir fjórar milljónir króna.
Þetta var afskaplega sérkennileg framsetning og furðuleg ályktun í ljósi þess að allir mega vita að langflestir sem kaupa bíl fá hann ódýrari eftir lækkun gjaldanna en fyrir hana. Sumir munu nýta það til að kaupa stærri og öruggari bíl, en aðrir munu stinga lækkuninni í vasann og eyða henni í eitthvað annað en ríkissjóð. En þarna liggur hundurinn ef til vill grafinn. Starfsmaður ríkisins hefur náttúrlega ekki nema hæfilega mikla samúð með því sjónarmiði að dregið sé úr tekjum og umsvifum ríkisins. Hann gætir hagsmuna sinna (að minnsta kosti til skamms tíma) með því að halda uppi vörnum fyrir ríkisumsvifin í pistlum á kostnað almennings.
Um skeið var því haldið að fólki – og jafnvel kennt í sögubókum – , að óvinir Snorra heitins Sturlusonar, athafnamanns og rithöfundar, hefðu í beiskju sinni hoggið hann á lögheimili hans, Reykholti í Borgarfirði. Enn eru ýmsir til sem leggja trúnað á þessar kenningar og skiptir litlu þó bent hafi verið á það sanna í málinu:
Dauði Snorra Sturlusonar
Þeir riðu átján einsog gengur
eftir miðjum Reykholtsdal
með nýja hjálma nýja skildi
nýja skó & troðinn mal
Þeir sungu frekt með fólskuhljóðum:
færum Snorra á heljarslóð
& vöktu alla upp á bænum
engum þóttu ljóðin góð
Þeir fóru um allt & undir rúmin
en engan Snorra fundu þó
hann bjó við Fálkagötu & gerði
grín að þessu & skellihló.
Þannig að þeir gripu í tómt. Ekki birtir Vefþjóðviljinn þetta nú endilega sem áríðandi innlegg í stjórnmálaumræðuna heldur fremur í tilefni dagsins, en fimmtíu og fimm ára er í dag höfundur þessara vísna, Magnús Þór Jónsson.