Fimmtudagur 6. apríl 2000

97. tbl. 4. árg.

Sá siður er að ryðja sér til rúms hér á landi að framkvæmdar séu áreiðanleikakannanir (e. due diligence) áður en bankar annast meiriháttar viðskipti fyrir fyrirtæki. Fréttir um að sameinað félag Vöku-Helgafells og Máls og menningar hygðist sækja um skráningu á VÞÍ vöktu því mikla athygli og nú velta menn því fyrir sér hvort Arnór Hannibalsson verði fenginn til að gera úttekt á Máli og menningu og áralangri þjónkun þess fyrirtækis við Sovétríkin áður en fyrirtækið verður boðið almenningi til kaups, svona rétt til að tryggja að skuldbindingar við félaga Stalín fylgi ekki með í kaupunum.

Mynd til heiðurs Ólafi Erni Haraldssyni pólfara
Mynd til heiðurs Ólafi Erni Haraldssyni pólfara

Þingmaðurinn Ólafur Örn Haraldsson dregur ekki af sér við þingstörfin þrátt fyrir annir á öðrum vettvangi. Nú hefur hann af hugmyndaauðgi sinni komið fram með tvær snjallar tillögur um eyðslu almannafjár. Önnur er um stofnun sérstaks tónminjasafn en hin um stofnun safns um vetraríþróttir. Svo skemmtilega vill til að þessi sami Ólafur Örn renndi sér á skíðum á Suðurpólinn fyrir skömmu og yrði sú ferð væntanlega í öndvegi á safninu. Það er ekki oft sem þingmönnum tekst að flytja tillögur á þingi um að þeim séu reist söfn og þeim mun ánægjulegra er að hinn hógværi og lítilláti Ólafur Örn skuli hafa fengið þessa hugmynd.

Þrátt fyrir hvað þetta er nú skemmtileg tillaga hjá Ólafi Erni hefur Vef-Þjóðviljinn nokkrar áhyggjur af kostnaðinum sem henni verður samfara. Vill hann því leggja sitt af mörkum til að Ólafur Örn megi fá þá upphefð sem hann telur sig eiga inni án þess að aðrir þurfi að bera af því kostnað. Í þessu skyni er hér til hliðar birt mynd af þingmanninum honum til heiðurs og eru vonir bundnar við að ef fleiri miðlar birta myndir af Ólafi Erni honum til heiðurs, þá megi draga úr þörf hans fyrir sérstakt safn.