Maður er nefndur Þórhallur Heimisson, síra Þórhallur Heimisson nánar tiltekið. Hann hefur miklar skoðanir á þjóðmálum, skrifar um fjölskyldumál fyrir DV og var titlaður sérfræðingur í málefnum fjölskyldunnar á ráðstefnu Framsóknarflokksins um síðustu helgi. Þórhallur lítur oftast á viðfangsefnin með augum heildarhyggju annars vegar og bölsýnis hins vegar. Einstaklingarnir virðast. honum iðulega vera að gera eitthvað rangt í sínu lífi, eignast of mörg börn, vinna of mikið, eyða í einskis nýta hluti o.s.frv. Lausnirnar sem hann stingur upp á gegn vám þessum bera keim af sömu hugmyndafræði, stýra þarf einstaklingunum frá villu síns vegar og ríkið þarf að verja meiru fé í þessi eða hin verkefnin. Gengu Þórhallur og félagar hans, sem allir hafa notið velferðarsælunnar í hinni stórskuldugu Svíþjóð, svo langt í dómsdagsspám hjá Framsóknarflokknum um helgina að viðstaddur Páll Pétursson félagsmálaráðherra sagði að ef þessi greining þeirra á raunveruleikanum væri rétt þyrfti hann að ganga út og hengja sig.
Lítum á hvort til þess þarf að koma. Þórhallur segir í DV á laugardaginn: „Og ekki þarf að deila um bág kjör öryrkja eftir að skýrsla Rauða krossins um fátækt var birt fyrir skömmu.“ „En í þessu góðæri hefur fátækum fjölgað og af einhverjum ástæðum og vandi margra fjölskyldna aukist.“ Og hann og félagar sögðu framsóknarmönnum um helgina að á öðrum Norðurlöndum væri varið mun meiru opinberu fé til fjölskyldumála en á Íslandi. Rétt er hjá Þórhalli margir öryrkjar búa við bág kjör. Ekki búa þó allir við fjárhagserfiðleikar sem svo er ástatt um. Margir öryrkjar ná að vinna vel fyrir sér og einbeita sér að því sem þeir geta gert. Sumir eiga hins vegar ekki kost á að vinna. Örorkubætur eru alls ekki háar, en kaupmáttur þeirra hækkaði þó um næstum fjórðung á síðasta kjörtímabili. Ekki telur Þórhallur það málflutningi sínum til tekna að minnast á þá staðreynd. Eins talar hann um hina svokölluðu skýrslu Rauða krossins sem eins konar grundvöll allrar umræðu um örorku. Skýrsla var þó ekki annað en skoðanakönnun, þar sem bæði ýmsir félagsfræðingar (kannski sumir þeirra sem héldu erindi með Þórhalli um helgina), og svo fólk sem valið var af handahófi úr símaskránni, tjáði sig um það hvar það teldi að skórinn kreppti helst. Margir nefndu öryrkja, og þá þarf ekki að rífast meira um það, vísindin staðfesta þar með að kjör öryrkja eru fyrir neðan allar hellur.
Og Þórhallur fullyrðir að fátækt hafi aukist. Enginn rökstuðningur þar, ekki einu sinni ein lítil skoðanakönnun. Hvaða staðreyndir þekkjum við? Kaupmáttur bóta hefur aukist um tugi prósentna á undanförnum árum, til jafns á við kaupmátt launavísitölunnar. Kaupmáttur lægstu taxta hefur aukist enn meira. Atvinnuleysi er nær horfið, og víða vantar fólk til vinnu. Atvinnuleysisbætur hafa einnig hækkað umtalsvert. Vanskil í bönkum og hjá Íbúðalánasjóði hafa dregist stórum saman. Allt bendir þetta til þess að hagur hinna verst settu sé óðum að batna. Þórhallur veit hins vegar betur, en leynir afar vel upplýsingunum sem hann hefur um málið.
Og þá að blessuðum frændum okkar í Skandinavíu. Samkvæmt. Þórhalli er ríkisvaldið afar gjafmilt við fjölskyldufólk ytra, ólíkt nánasarskapnum hér. Hann gleymir hins vegar alveg að geta þess að það eru þessar sömu fjölskyldur sem standa undir ríkisrekstrinum. Lítum á heildarmyndina í samanburði milli landa. Eftir að greiddir hafa verið skattar, launatengd gjöld og dagvistarkostnaður, og barnabætur reiknaðar á móti, er niðurstaða hjóna með tvö börn og 280 þúsund króna mánaðarlegar heildartekjur eftirfarandi: Íslenska fjölskyldan á 75% launa sinna eftir til að ráðstafa að eigin þörfum. Finnska fjölskyldan á 60%. Sænska fjölskyldan á 65%. Norska fjölskyldan á 70%. Danska fjölskyldan á 53%.
Einstætt foreldri með eitt barn, miðað við 125 þúsund krónur í mánaðartekjur: Á Íslandi heldur foreldrið 77% launa sinnar eftir. Í Noregi einnig 77%. Í Svíþjóð 66%. Í Finnlandi 62%. Í Danmörk 55%.
Hvað með barnlaus hjón? Miðað er við rúmlega 280 þúsund króna mánaðartekjur. Eðlilega er ekki um að ræða barnabætur eða dagvistarkostnað í þessu tilviki. Íslensku hjónin halda 75% launa sinna eftir. Þau norsku 68%. Þau sænsku 65%. Hin finnsku 60%. Og dönsku hjónin halda einungis 53% launa sinna eftir. Með öðrum orðum, íslenskar fjölskyldur halda langmestu af sjálfsaflafé sínu eftir, þegar tekið er tillit til bóta og skatta líka. Þessar tölur koma frá hinni samnorrænu NOSOSKO nefnd og eru frá 1996. Barnabætur voru reyndar tekjutengdar árið 1997 en þá var miðað við að barnabætur hjóna með tvö börn og samanlagðar tekjur á bilinu 280-290 þúsund krónur yrðu óbreyttar. Það þýðir að samanburðurinn verður Íslandi hagstæðari ef eitthvað er eftir árið 1997, fyrir þá sem eru neðan 280 þúsundanna.
Það lítur því út fyrir að Páll Pétursson geti lagt reipið á hilluna um hríð.