Helgarsprokið 26. mars 2000

86. tbl. 4. árg.

Málstofa um hagrænar leiðir til að meta verðgildi náttúru var haldin síðastliðinn fimmtudag og til hennar boðuðu verkefnisstjórn um rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, Þjóðhagsstofnun og Landvernd. Tveir hagfræðingar, Páll og Magnús Harðarsynir, fluttu fyrirlestur um svokallað skilyrt verðmætamat á náttúrunni, en það er aðferð sem hefur verið beitt til að reyna að leggja mat á verðmæti náttúrunnar. Þessa aðferð hefði til dæmis mátt nota til að reyna að finna út verðmæti hinna bráðfrægu Eyjabakka. Gallinn er hins vegar sá, að þessi aðferð hefði að öllum líkindum gefið ranga hugmynd um verðmætið svo enginn væri miklu betur settur eftir að þessari aðferð hefði beitt við verðmatið. Til að útskýra þessa fullyrðingu er nauðsynlegt að fjalla stuttlega um aðferðina og ræða svo um annan kost sem líklegri er til að gefa rétta mynd af því hversu verðmæt náttúran er.

Skilyrt verðmætamat er í grófum dráttum framkvæmt þannig að fólk er spurt um það hvers virði tiltekin náttúrugæði eru því. Þannig væri t.a.m. hægt að spyrja: „Hvað ertu tilbúin(n) til borga fyrir að Eyjabakkar verði ekki notaðir til raforkuframleiðslu?“, „Hversu miklar bætur mundirðu vilja fá ef Eyjabakkar yrðu notaðir til raforkuframleiðslu?“ eða „Mundirðu greiða meira eða minna en 5.000 krónur fyrir að Eyjabakkar yrðu ekki notaðir undir raforkuframleiðslu?“. Til að þessi aðferð geti talist vönduð þarf að gera ítarlega forkönnun, undirbúa gögn sem sýna þeim sem spurðir eru hvaða kosti er um að ræða og svo er einnig mikilvægt að menn séu spurðir augliti til auglitis og að fyrirspyrjandinn geri hinum spurðu grein fyrir ástandi annarra sambærilegra svæða og að þeir geti ekki notað þá fjármuni sem þeir setja í verndun náttúrunnar í eitthvað annað. Að ýmsu öðru þarf að gæta, en allt mun þetta gert til að reyna að fá hinn spurða til að skilja vel um hvað málið snýst svo hann gefi sem réttast svar. Í erindi hagfræðinganna tveggja kom einnig fram að ekki er sama hvaða form á spurningu er notað og getur munað tugum prósenta á niðurstöðum. Þess vegna lögðu þeir mikla áherslu á að vanda yrði vel til slíkrar könnunar og gæta varfærni, því ýmislegt gæti orðið til að ýta undir of hátt mat.

Enginn neitar því að á þessari aðferð eru miklir vankantar og kom vel í ljós á umræddri málstofu að ekki voru allir sáttir við aðferðina. Eitt það helsta sem menn efuðust um er að fólk mundi gefa upp rétt verð. Annars vegar vegna þess að fólk getur haft hagsmuni af að gefa upp of lágt eða of hátt verð og hins vegar vegna þess að fólk á erfitt með að gera sér grein fyrir því hvers virði einhver hluti náttúrunnar er því í krónum og aurum. Þar kemur bæði til að þetta er ekki nokkuð sem fólk veltir almennt mikið fyrir sér og svo hitt að fólk þarf ekki að standa við þá tölu sem það nefnir. Þetta er í raun nokkurs konar leikur sem fólk tekur þátt í og hann er án beinna afleiðinga. Allt öðru máli gegnir um það þegar fólk t.d. tekur afstöðu til verðs á vöru úti í búð. Þar tekur fólk ákvörðun um að kaupa eða kaupa ekki og hefur það strax bein áhrif á budduna.

Annar vandi felst t.d. í því hvernig túlka beri sum svör þátttakenda. Hvaða skilning á að leggja í það ef hinn spurði segir að náttúran sé honum einskis virði? Segir hann þetta vegna þess að honum er alveg sama um náttúruna, vegna þess að hann er á móti því að verðleggja hana eða ef til vill vegna þess að hann er fylgjandi því að virkjað verði og vill að svar sitt hafi sem mest áhrif á meðaltalið? En hvað ef hinn spurði segir þvert á móti að það sem spurt er um sé honum margra milljarða virði? Segir hann það vegna þess að hann vill vernda náttúruna eða er þetta einfaldlega rétt svar og hann er afar vel stæður og áhugasamur um að eignast það sem spurt er um? Í slíkum könnunum er útgildum (þ.e. „óeðlilega“ háum eða lágum gildum) oft sleppt, en það getur orðið til þess að ekki er tekið tillit til þeirra sem hafa sterkastar skoðanir á viðkomandi málefni. Líkurnar á því að sá aðili sem er tilbúinn til að kaupa landsvæði til að vernda það lendi í könnuninni eru ekki miklar. Ef honum er þar að auki sleppt ef hann lendir í úrtakinu næst markmiðið með könnuninni augljóslega ekki. Það má einnig gera ráð fyrir að aðilar utan þess hóps sem úrtakið er tekið úr vilji leggja eitthvað af mörkum. Það er alþekkt að fólk „ættleiðir“ hvali, fíla og fleiri dýr í fjarlægum heimsálfum sem það mun aldrei líta augum.

Hagfræðingarnir tveir tóku undir margt í þeirri gagnrýni sem fram kom á þessa aðferð, en voru þó þeirrar skoðunar að hún sé að minnsta kosti nothæf til að hafa til hliðsjónar og kom fram að þeir álitu aðrar leiðir til verðmætamats síðri. Þetta kemur nokkuð á óvart því hægt er að fara þá leið að láta verðmætamatið ráðast á markaði eins og þegar um önnur verðmæti er að ræða. Því hefur helst verið haldið fram að hár viðskiptakostnaður komi í veg fyrir að markaðurinn ráði við að verðmeta vörur á borð við náttúrugæði, en engin ástæða er til að ætla að þetta eigi við rök að styðjast.

Yfir hundrað þúsund Íslendingar skráðu sig samanlagt fyrir mörgum milljörðum af hlutabréfum í bönkum sem ríkið seldi í fyrra. Söfnun þessa stóra hóps tók skamman tíma og ekki þurfti nema nokkrar auglýsingar í kjölfar þeirrar umræðu sem fram hafði farið til að þetta yrði að veruleika. Ef ríkið byði landspildu á borð við Eyjabakka til sölu mætti hafa sama hátt á. Auglýsa mætti stofnun hlutafélags sem hefði það að markmiði að kaupa landsvæðið og bjóða mönnum að skrá sig fyrir hlutabréfum. Væri raunverulegur áhugi fyrir hendi mundi mikill fjöldi hluthafa nást og mikið fé safnast. Ef eitthvað er að marka tal samtaka á borð við World Wide Fund má einnig búast við að töluverðu hlutafé mætti safna erlendis. Það er því ekki að sjá að þessi aðferð sé flóknari en sú að standa fyrir viðamikilli og vandaðri könnun og gera hið svokallaða skilyrta verðmætamat. Markaðsaðferðin hefði auk þess tvo ótvíræða kosti. Annars vegar kæmist landsvæðið úr eigu ríkisins og í eigu þeirra sem hafa hagsmuni af að nýta það skynsamlega. Hins vegar hefði hún þann kost að með henni fengist raunverulegt markaðsverð landsvæðisins en ekki eftirlíking af markaðsverði.