Sama fólkið og fór hamförum út á friðhelgi einkalífsins þegar frumvarp um gagnagrunn á hinu ríkisrekna heilbrigðissviði var til umfjöllunar á þingi hefur undanfarin misseri lagt okkur hinum línurnar um það hvort við megum afklæðast fyrir framan myndavélar eða á þar til gerðum veitingastöðum og ekki síður hvort aðrir megi horfa á. Kolbrún Halldórsdóttir alþingismaður hefur jafnvel gefið út tilskipanir um það hvort og hvernig konur megi raka sig, eins og heyra mátti í Silfri Egils á Skjá 1 á dögunum. En of mikil snyrting er orðin einn helsti glæpur samtímans þar sem slík snyrting hvetur, að sögn Kolbrúnar, til níðingsverka gagnvart stúlkubörnum. Þetta kemur nokkuð á óvart þar sem í lagafrumvarpi Kolbrúnar til breytingar á hegningarlögum sem flutt var fyrir nokkrum vikum er hvergi minnst á þennan glæp, hvorki í frumvarpinu sjálfu né ítarlegri greinargerð með því. Má vera að þessi glæpur sé svo mikill glæpur að enginn hafi áttað sig á honum fyrr en á fundi í Iðnó, eftir að Kolbrún lagði frumvarp sitt fram, þar sem Diana Russel sem er víst fræðimaður frá útlöndum talaði um hann?
En það eru fleiri mál til umfjöllunar nú sem varða það hvort við fáum að vera í friði fyrir ríkisvaldinu með persónulega hagi okkar. Björgvin Guðmundsson varaformaður Heimdallar hefur lagt til atlögu við þann ósið skattyfirvalda að bera upplýsingar úr skattaskýrslum einstaklinga og fyrirtækja á torg. Björgvin skilaði í gær skattaskýrslu sinni með þeim fyrirvara að skattstofan birti ekki upplýsingar úr henni. Nánari útlistanir á þessu framtaki má lesa um á heimasíðu Heimdallar.