Fimmtudagur 23. mars 2000

83. tbl. 4. árg.

Gordon Brown, fjármálaráðherra í Bretlandi, mælti á þriðjudaginn fyrir fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Frumvarpið felur í meginatriðum í sér aukin ríkisútgjöld, einkum á sviði heilbrigðis- og menntamála, og sýnir jafnframt svart á hvítu að ríkisstjórn Verkamannaflokksins hyggst halda áfram að auka skattheimtu, þvert ofan í loforð sem gefin voru fyrir kosningar. Má segja að með þessu sé Verkamannaflokkurinn að hverfa frá stefnu hins „nýja“ Verkamannaflokks aftur til áherslna flokksins frá því fyrir 1994 en þá varð Tony Blair leiðtogi hans.

Gordon Brown
Gordon Brown

Með auknum ríkisútgjöldum er ríkisstjórnin að koma til móts við kröfur ýmissa þingmanna og stuðningsmanna flokksins af vinstri vængnum, sem halda því fram að ríkisstjórnin hafi brugðist hefðbundnum stuðningsmönnum flokksins með því að reyna að höfða til nýrra hópa, ekki síst vel menntaðs og fjárhagslega sjálfstæðs ungs fólks í Lundunum og suð-austurhluta landsins. Flokkurinn náði að laða þetta fólk til fylgis við sig í síðustu kosningum en vinstri armur flokksins hefur hins vegar haldið því fram að það hafi verið á kostnað grundvallarstefnu flokksins og að hætta sé á að gamalgrónir stuðningsmenn flokksins sitji heima þegar næst kemur til kosninga, ef ekkert verði að gert.

Fjárlagafrumvarpið er svar forystu Verkamannaflokksins við þessari gagnrýni. Til þess að hafa „gamla“ flokkinn góðan eru ríkisútgjöld aukin og skattar hækkaðir, en til þess að styggja ekki „nýja“ flokkinn er reynt að fela skattahækkanirnar með margvíslegum hætti. Þannig verður til dæmis ekki um að ræða beina hækkun á tekjuskatti, heldur eru ýmsir óbeinir skattar hækkaðir, svo sem bensíngjald, tóbaksgjald, áfengisgjald á bjór og léttvín og stimpilgjald vegna sölu á eignum yfir tilteknum viðmiðunarmörkum. Þá stendur til að afnema hjónaafslátt á tekjuskatti, sem að sjálfsögðu mun leiða til aukinnar skattbyrði. Eftir þessar breytingar er gert ráð fyrir að skattbyrðin í landinu verði á næsta ári 37,3% af vergri landsframleiðslu, en á þessu ári er hún talin vera 36,9% og þegar Verkamannaflokkurinn tók við völdum 1997 var hún 35,3%. Hér er um umtalsverða hækkun að ræða, ekki síst ef litið er til þess að landsframleiðsla hefur aukist talsvert á þessu sama tímabili. Þjóðarkakan hefur þannig stækkað en ríkisstjórnin telur samt ástæðu til að skammta sér hlutfallslega stærri bita af henni.

Þá hefur jafnframt verið bent á að þessi ríkisstjórn hafi gengið enn lengra en fyrri stjórnir í að flækja skattkerfið með ýmis konar undanþágum og „hvetjandi“ sértækum aðgerðum, einkum í þágu nýrra fyrirtækja í hátækni og upplýsingaiðnaði. Þetta, ásamt stórauknu reglugerðafargani og eftirlitsstarfsemi, geri samkeppnisstöðu breskra fyrirtækja erfiðari en ella, enda felist í þessu talsverður dulinn kostnaður fyrir fyrirtækin, sem á endanum muni lenda á neytendum með einum eða öðrum hætti.

Það er athyglisvert að Gordon Brown hefur hlotið hrós á undanförnum misserum fyrir tiltölulega ábyrga stjórn á ríkisfjármálunum og jafnvel eftir að fjárlagafrumvarpið var kynnt heyrðust raddir um að það sýndi staðfestu hans og aðhaldssemi. Ýmsir leiðarahöfundar og dálkahöfundar í dagblöðunum hafa á móti bent á að Brown hafi verið sérlega heppinn vegna uppsveiflunnar í efnahagslífinu á undanfornum árum og ef hann eigi hrós skilið sé það fyrst og fremst fyrir að vera ekki eins óábyrgur á þessu sviði og ýmsir flokksbræður hans. Spurningin er hins vegar sú hvort hann sé farinn að láta undan þrýstingi þeirra og hvaða afleiðingar þetta muni hafa. Er þannig bent á að það kunni að vera í lagi til skamms tíma að auka bæði skatta og ríkisútgjöld meðan uppsveiflan er enn við lýði, en ef harðni á dalnum í efnahagslífinu þurfi að taka öðru vísi á málunum og það geti reynst erfiðara en ella þegar búið sé að skapa væntingar um sífellt aukin útgjöld til vinsælla málaflokka eins og heilbrigðis- og menntamála.