Gjafakvóti er orð sem stuðningsmenn aukinnar skattheimtu á sjávarútveginn og aðrir andstæðingar hagkvæms stjórnkerfis fiskveiða hafa mikið notað máli sínu til stuðnings. Þetta orð á að lýsa því að einhverjum hópi útvegsmanna hafi verið gefinn kvóti þegar aflamarkskerfið var tekið í notkun. Nú er vitaskuld ekki rétt að þeim hafi verið gefinn kvótinn, því þeir fengu honum úthlutað eftir málefnalegri reglu sem byggðist á veiðireynslu. Hefðu þeir ekki fengið kvótanum úthlutað þegar veiðar voru takmarkaðar með aflamarkskerfinu hefðu þeir þar með verið sviptir réttindum. Þrátt fyrir þetta hefur andstæðingum aflamarkskerfisins þótt eðlilegt að nota orðið gjafakvóti. Ein af röksemdunum fyrir því að nota enn þetta orð þegar svo langt er liðið frá því úthlutunin átti sér stað hlýtur að vera að enn séu að mestu leyti sömu mennirnir handhafar sama kvótans og þeir fengu í upphafi. Ef allt aðrir menn eru að veiða kvótann og ef þessir nýju menn hafa keypt sinn kvóta er tæplega verjandi að tala um gjafakvóta.
Til að reyna að fá meira vit í umræðuna um kvótamálin hefur LÍÚ látið taka saman tölur um hversu mikið af kvótanum er enn í höndum þeirra sem fengu honum úthlutað í upphafi og hversu margir nýir eru komnir inn í greinina. Niðurstaða þessarar athugunar hlýtur að vera þeim nokkurt fagnaðarefni sem haft hafa áhyggjur af að um gjafakvóta sé að ræða, því í ljós kom að einungis 19% þeirra sem upphaflega fengu kvótanum úthlutað eru enn að veiða þann sama kvóta. Langflestir hafa þurft að kaupa sér kvóta til að geta stundað veiðar.
Sé vilji til að halda uppi málefnalegri umræðu um stjórnkerfi fiskveiða hlýtur hið leiða orð gjafakvóti að hverfa úr þeirri umræðu því það á sér enga stoð í raunveruleikanum og gagnast ekki nema til útúrsnúnings. Með orðinu gjafakvóti hlýtur orðið sægreifi einnig að hverfa, því óeðlilegt er að tala um þá sem greifa sem hafa þurft að kaupa sér réttindi sín, í þessu tilviki veiðiheimildirnar. Þeir sem hér eftir nota þessi orð máli sínu til stuðnings hljóta annað hvort að hafa hrakið tölurnar frá LÍÚ eða kæra sig ekki um að umræðan sé málefnaleg.
Ýmsir hafa áhyggjur af því að olía muni klárast á næstunni. Einn þeirra ritaði grein í dálkinn Lagnafréttir í fasteignablað Morgunblaðsins í gær og birti máli sínu til stuðnings graf sem sýnir að árið 1980 töldu menn að olían entist í 35 en árið 1993 í 45 ár. Þessar tölur vöktu þó engar efasemdir hjá bréfritara. Hvernig stendur á því að árið 1980 spá menn því að olían dugi í 35 ár en 13 árum síðar er talið að hún dugi í 45 ár þegar hún ætti með réttu aðeins að duga í 22 ár miðað við spána frá 1980? Ástæðan fyrir þessu er að þegar rætt er um hve lengi olían dugar eru ekki teknar með í reikninginn framfarir sem verða við olíuleit og vinnslu. Árið 1965 var til dæmis aðeins mögulegt að bora eftir olíu á 100 metra undir yfirborði sjávar en nú bora menn á 1000 metra dýpi. Ný þrívíddargreining á berglögum hefur aukið nýtingu olíulinda úr 40 í 70%. Slíkar framfarir sjá menn ekki fyrir og það er ástæðan fyrir því að við höfum sífellt fleiri ár framundan sem við getum nýtt þennan hagkvæma orkugjafa sem olían er. Þegar fer að sneyðast um olíuna hækkar verðið á henni vafalaust og aðrir orkugjafar leysa hana smám saman af hólmi. Hvenær það verður er ómögulegt að segja til um en vafalaust munu menn halda áfram að fullyrða eitt og annað um það.