Þriðjudagur 21. mars 2000

81. tbl. 4. árg.

Fjölmiðlar hafa fjallað töluvert um forsetakosningarnar á Formósu (Taívan) og hugsanleg viðbrögð byltingarstjórnar kommúnista í Peking sem hefur sýnt sitt rétta andlit við þessar aðstæður. Réttilega hefur verið bent á að vonandi gefi leiðtogar stjórnarinnar ekki út svo herskáar yfirlýsingar að þeir telji sig verða að standa við þær með einhverjum hætti og hefja stríð til þess að ná eyjunni undir sig. Sá grundvöllur, sem Pekingstjórnin reisir hótanir sínar á, byggist á blindri þjóðernisstefnu annars vegar og stórveldisrembingi hins vegar. Stjórnin lítur á Kínverja sem eina þjóð og vill sameina þá undir einu ríki með góðu eða illu. Auk þess stendur hún í þeim misskilningi að yfirvöld í Peking séu hin réttu yfirvöld Kínverja, en ef litið er til sögunnar og hegðunar þessara stjórnvalda geta þau tæplega talist það. Staðreyndin er raunar sú að vart er hægt að líta á Kínverja sem eina þjóð heldur margar. Kínverjar tala í raun mörg tungumál og búa við ólíkan menningararf. Á Vesturlöndum er yfirleitt talað um kínverskar mállýskur en þær eru svo fjarskildar að hver um sig dugar ekki nema í ákveðnum hluta Kína. Íbúi frá Sjanghæ skilur t.d. ekki mælt mál Hong Kong búa og öfugt.

Ofbeldishótanirnar frá Peking sýna að kommúnismi og þjóðernisstefna eiga samleið og geta leitt heilar þjóðir í miklar ógöngur. Sennilega myndi verulega draga úr ófriðarógn í Asíu ef hið víðlenda Kína myndi skiptast í nokkur ríki eða ríkjasamband. Þá gætu íbúar þess og valdhafar einbeitt sér að því að auka velsæld í landinu í stað þess að vera með stríðsæsingar hverjir við aðra. Stöð 2 hefur staðið sig prýðilega í fréttaflutningi um þetta mál. Ýtarleg fréttaskýring Óla Tynes fréttamanns um málið síðastliðinn föstudag var sérlega vönduð og vel unnin. Í fréttaskýringum Óla er ekki einungis sagt frá nýjustu atburðum heldur leitast við að rifja upp forsögu málsins, nokkuð sem aðrir fréttamenn mættu taka sér til fyrirmyndar.

Frétt Stöðvar 2 á laugardagskvöld um úrslit forsetakosninganna skaut hins vegar skökku við þar sem fréttaritari stöðvarinnar í Peking fjallaði nokkuð sérkennilega um málið. Virtist hann hafa nokkurn skilning gagnvart því sjónarmiði Pekingstjórnarinnar að sameina eigi alla Kínverja undir einni stjórn og lét m.a. þau orð falla um nýlega innlimun tveggja landsvæða í Kína að Hong Kong og Macau hefðu snúið aftur til föðurhúsanna. Ekki verður annað ráðið af orðalaginu en íbúar þessara svæða hafi af fúsum og frjálsum vilja sameinast meginlandi Kína á ný. Það er mikill misskilningur. Hong Kong og Macau voru innlimuð þar sem Bretar og Portúgalir höfðu þessi landsvæði aðeins á leigu tímabundið eða til 1998-99. Yfirgnæfandi meirihluti íbúanna vildi ekkert síður en verða seldir undir Pekingstjórnina enda höfðu margir þeirra flúið fátækt og kúgun á meginlandi Kína.

Frægt varð þegar Þjóðviljinn sálugi birti fréttir um hernaðaraðstoð eða hjálparaðstoð Sovétríkjanna þegar sovéski herinn gerði innrás í hvert Evrópulandið á fætur öðru. Ef svo illa fer að Kínverjum takist að innlima Taívan með þvingunum eða hernaðarofbeldi, verður fróðlegt að sjá hvort fréttaritari Stöðvar 2 í Peking telji að eyjaskeggjar hafi með því snúið aftur til föðurhúsanna.