Föstudagur 17. mars 2000

77. tbl. 4. árg.

Í DV í gær er Árni Bragason forstöðumaður Náttúruverndar ríkisins spurður álits á kaupum einstaklinga á náttúruperlum vegna kaupa Sigurjóns Sighvatssonar á Hellisfirði og Arney. Árni svarar: „Það getur verið mjög slæmt ef náttúruperlur komast í eigu einstaklinga því ef hagsmunir eigendanna og fjöldans fara ekki saman þá skapast vandamál.“ Svo bætir Árni við: „Við þekkjum mörg dæmi um árekstra sem verða við þessar aðstæður, sérstaklega þar sem eigendur eru að reyna að afla sér tekna með nytjun eigna sinna.“ Og að lokum segir Árni: „Einfaldast væri að náttúruperlur væru alltaf í eigu ríkisins því þá væru hagsmunir fjöldans alltaf tryggðir.“

Þessi sjónarmið Árna eru ekki ný af nálinni. Lengstum hafa þau gengið undir nafninu sósíalismi. Það er af og frá að það sé vandamál ef eigendur lands taka gjald fyrir aðgang að því. Það tryggir bæði tekjur til að halda svæðunum við, takmarkar aðgang að þeim og kemur þar með í veg fyrir að þau séu troðin niður af „fjöldanum“. Hvers vegna eiga þeir sem vilja skoða náttúruperlur að fá að skoða þær frítt? Það kostar sitt að búa svo um hnútana að svæðin séu ekki spörkuð sundur. Eiga þeir sem nýta svæðin ekki að greiða fyrir afnotin? Það er kunnara en frá þurfi að segja hvaða vandamál eign ríkisins á náttúruauðlindum hefur haft í för með sér. Er ekki öll Austur-Evrópa meira og minna í sárum eftir að „hagsmunir fjöldans voru tryggðir“ með eign ríkisins á náttúruauðlindum?

Zhu Rongji, sem titlar sig forsætisráðherra Kína, hefur nú aukið þrýstinginn á hina lýðræðislegu kjörnu stjórn Kína í Taívan og kjósendur þar vegna komandi forsetakosninga. Zhu Rongji er fulltrúi kommúnistastjórnarinnar í Beijing, sem stal völdum í landinu árið 1949. Þeir sem komust undan kommúnistunum flúðu til eyjunnar Taívan og búa nú við lýðræði þar í landi. Þetta geta kommúnistarnir illa sætt sig við og hafa því stöðugt í hótunum við Taívani. Ferill þessara tveggja stjórna er afar ólíkur. Á meðan almenningur á Taívan býr við almenn mannréttindi hefur stjórn kommúnista í Beijing alla tíð stjórnað með ofbeldi. Tugir milljóna Kínverja hafa fallið vegna kommúnismans í Kína og enn er stjórnarfarið með þeim hætti að þeir sem aðrar skoðanir hafa en stjórnarherrarnir lenda í margra ára fangelsi eða eru brytjaðir niður þúsundum saman eins og gerðist síðast fyrir rúmum áratug á Torgi hins himneska friðar. En ofbeldið beinist ekki aðeins gegn innlendum mönnum, heldur er því einnig beint gegn erlendum ríkjum eins og Taívan og fleiri nágrönnum sem kommúnistastjórnin telur minni máttar.

Hótanir Zhu Rongji nú ganga út á að verði einn tiltekinn frambjóðandi kosinn forseti þá séu það mistök sem Taívanar muni líklega ekki fá tækifæri til að leiðrétta. Í ljósi fyrri yfirlýsinga kommúnistastjórnarinnar um mögulega valdbeitingu gegn Taívan er ekki hægt að misskilja þessa hótun. Einræðisstjórn eins og stjórn kommúnista í Kína er allra hluta vegna sannkallaður skaðræðisgripur. Bæði inn á við og út á við veldur hún fólki miklum óþægindum og oft hreinum hörmungum og af henni stafar stöðug ógn. Erlend ríki geta ekki beitt sömu aðferðum gagnvart henni og hún hótar erlendum ríkjum, en full ástæða er til að haga öllum samskiptum við hana með hliðsjón af því hvers konar ógnarstjórn hún er. Rauðir dreglar eða annar virðingarvottur eiga ekki við í samskiptum við slíkar einræðisstjórnir, en hins vegar er full ástæða til að eiga sem mest samskipti og viðskipti við almenning í Kína. Með auknum viðskiptum við hinn almenna Kínverja mun hann efnast og styrkjast og loks geta risið upp gegn ofbeldinu.