Í Vísbendingu vikunnar er bent á að nú þegar séu þrjú tekjuskattsþrep hér 0%, 38,3% og 45,3%. Ef að menn vilji draga úr jaðaráhrifum skattkerfisins þurfi frekar að fækka þrepum en fjölga en verkalýðsrekendur hafa farið fram á enn eitt þrepið að undanförnu. Vísbending gleymdi raunar að geta fjórða þrepsins sem felst í sjómannaafslætti en gat þess hins vegar að þrepin eru í raun óendanlega mörg vegna tekjutengingar bóta. Persónuafslátturinn veldur því einnig að menn sem lenda í sama þrepi greiða mishátt hlutfall af launum sínum í skatt. Nýlegar reglur um „viðbótar“ lífeyrissparnað flækja málið enn frekar. En það má glögglega sjá hve skattþrepin eru mörg í eftirfarandi dæmum sem eru gróflega reiknuð:
Mánðarlaun, krónur | Skattur, krónur | Skatthlutfall |
70.000 | 1.872 | 2,7% |
150.000 | 30.147 | 20,1% |
250.000 | 66.187 | 26,5% |
500.000 | 171.686 | 34,3% |
1.000.000 | 384.784 | 38,5% |
2.000.000 | 810.910 | 40,5% |
Stjórnmálamenn eru flestir afskaplega hræddir við háværa þrýstihópa. Ein mynd af slíkri hræðslu birtist í Morgunblaðinu í fyrradag þar sem oddviti minnihluta Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur ritar grein til að tryggja að engum manni detti í hug að sjálfstæðismenn í borgarstjórn setji hag skattgreiðenda ofar sérhagsmunum nokkurra tónlistarmanna. Í greininni er útskýrt að þótt sjálfstæðismenn í hafnarstjórn hafi á dögunum viljað frest til að fá greinarbetri upplýsingar um löndunaraðstöðu ef tónlistarhús yrði byggt, þá þýði það sko heldur betur ekki að sjálfstæðismennirnir vilji ekki ríkistónlistarhús. Samkvæmt oddvitanum standa R- og D-listamenn saman í þessu máli og hafa alls ekki í hyggju að taka tillit til skattgreiðenda. Það er umhugsunarvert fyrir skattgreiðendur að vita til þess að þeir eiga sér engan málsvara í borgarstjórn.
Það er líka umhugsunarvert í sambandi við þetta ríkistónlistarhús hversu langt þeim sem berjast fyrir því hefur tekist að komast með stjórnmálamennina. Húsið á að þjóna þröngu sviði tónlistar og þeir sem hagsmuni hafa af byggingu hússins eru tiltölulega fáir. Þó hefur þeim tekist að sannfæra fjölda stjórnmálamanna um að nauðsynlegt sé að leggja þúsundir milljóna króna í þessa byggingu, en ekki sér fyrir endann á því hversu miklu mun þurfa að eyða í húsið til að friða þennan þrýstihóp. Stuðningur við húsið er raunar ekki meiri en svo að í söfnun til byggingar þess náðist ekki inn nema um eitt prósent af byggingarkostnaði og meðal almennings er ekki hægt að finna mikinn stuðning við húsið. Flestir láta sig málið litlu varða og hugsa ekki út í það, en sú afstaða hjálpar einmitt þrýstihópnum sem hyggst neyða húsinu upp á skattgreiðendur. Einnig er ástæða til að hugleiða þá staðreynd að á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins tókst stuðningsmönnum byggingar hússins, með menntamálaráðherra í broddi fylkingar, ekki að fá samþykktan stuðning við byggingu hússins þrátt fyrir að hafa sett ályktun þess efnis inn í drög sem lágu fyrir fundinum. Ekki verður því séð að stuðningur við húsbyggingu þessa sé mikill, sérstaklega ekki ef menn eru beðnir um að styðja hana með eigin fjármunum. Sumum tónlistar- og stjórnmálamönnum er hins vegar ósárt um að setja í hana annarra manna fé og það viðhorf mætti að ósekju breytast.