Föstudagur 10. mars 2000

70. tbl. 4. árg.

Íslensk hross eru til margra hluta nytsamleg. Þau má nota til útreiða og þannig getur mannskepnan komist í nánari snertingu við annars konar skepnu. Eins má moka undan þeim og fóðra þau og hafa töluverða ánægju af. Þá má hafa af því nokkra gleði að horfa á þessa ferfætlinga og loks má nefna að hrossabjúgun hafa löngum þótt herramannsmatur. Ekki skal fullyrt að sameiningartáknið Ólafur Ragnar Grímsson bjóði upp á hrossabjúgu í fínum boðum með erlendum fyrirmennum, en hitt er víst að þingmaðurinn Hjálmar Árnason er sérstakur áhugamaður um að Ólafur Ragnar geti sýnt erlendum höfðingjum bæði hross og menn við komu þeirra til landsins.

Hjálmar vill að Ólafur og gestir hans aki á eftir átta til tíu hrossum fyrstu metrana frá Leifsstöð og að hrossin sitji það sem hann kallar „landslið hestamanna“. Þetta er að vísu ekki landslið, heldur konur og karlar á öllum aldri til að sýna hvernig hinar ýmsu gerðir Íslendinga fara við íslensku hrossin og hversu vel andlitsdrættirnir hafa fallið saman af aldalangri samveru. Verst er að vísu að hinir erlendu menn munu helst sjá afturenda hrossanna, en það kemur svo sem ekki mikið að sök, því þau eru víst býsna fögur aftan frá. Það sem þó hefur skort í þessa hrossaumræðu er hið sama og venjulega þegar stórhuga þingmenn beita sér fyrir snjöllum hugmyndum, en hér er vitaskuld átt við kostnaðinn. Enginn hefur greint frá því hversu mikill kostnaðaraukinn verður af hverjum erlendum gesti vegna þessa, en menn geta þó huggað sig við að þingmaðurinn Hjálmar Árnason telur að ekki verði mikið mál að flytja menn og hross til Leifsstöðvar eða hvert annað sem sýna skal íslensk hross og menn. Stjórnarþingmaðurinn Hjálmar Árnason hefur ekki verið spurður að því hvort þessi tillaga sé liður í aðgerðum ríkisstjórnarflokkanna til að slá á hina margumræddu þenslu.

„Stríðið við dópið“ er til umfjöllunar í tímaritinu The Economist og er tilefnið aukin hernaðaraðstoð Bandaríkjanna við Kólumbíu vegna þessarar baráttu. Tímaritið hefur miklar efasemdir um að þær aðferðir sem beitt er, þ.e. að setja æ meira fé og herafla í þetta stríð, geti skilað árangri. Er til dæmis bent á að reynslan sýni að þegar farið er út í miklar aðgerðir til að takmarka framleiðslu kókaíns í einu landi færist hún einfaldlega annað, því eftirspurnin sé fyrir hendi og mikil gróðavon einnig. Jafnframt er bent á það sem lítið hefur verið fjallað um, en það er hversu illa þetta stríð hefur farið með löndin fyrir sunnan Bandaríkin: „Rómanska Ameríka greiðir hátt verð fyrir fíkniefnaviðskiptin, því þau gegnsýra þjóðfélög hennar af spillingu.

Áætlaður fjöldi fanga í Bandaríkjunum á árunum 1930-2000. Heimild: Department of Justice, Justice Policy Institute
Áætlaður fjöldi fanga í Bandaríkjunum á árunum 1930-2000. Heimild: Department of Justice, Justice Policy Institute

Ef einhvern tímann á að takast að lækka þetta verð er Bandaríkjamönnum nauðsynlegt að horfa ekki aðeins á framboð af dópi heldur einnig eftirspurn þess. Það þýðir að þeir verða að íhuga nýjar leiðir heima fyrir, jafnvel lögleyfingu fíkniefna. Þetta er stríð sem vinnst ekki með herþyrlum.“

Á heimasíðu Cato stofnunarinnar í Bandaríkjunum er í lok síðasta mánaðar birt grein sem rituð hafði verið í The Washington Post skömmu áður. Þar er bent á að ein af afleiðingum fíkniefnabannsins sé gífurleg fjölgun fanga og að þeir hafi á dögunum náð tveggja milljóna markinu. Þessi aukning sést glöggt á meðfylgjandi línuriti og hvernig föngum fjölgar þegar farið var að heyja „stríðið við dópið“ af kappi. Árið 1981 sátu 22% fanga í bandarískum fangelsum inni fyrir fíkniefnabrot, en nú er þetta hlutfall 60%. Fíkniefnavandinn hefur hins vegar ekki minnkað, framboð efnanna er ekki minna en áður og gróði fíkniefnasalanna er enn gífurlegur. Það þarf því ekki að koma á óvart að bent sé á aðrar leiðir en þá sem nú er farin til að takmarka skaðsemi fíkniefna.