Miðvikudagur 8. mars 2000

68. tbl. 4. árg.

Í leiðara DV í gær var á það bent að þær fjórar íslensku kvikmyndir sem mesta aðsókn hafa hlotið eru jafnframt meðal þeirra mynda sem minnstra ríkisstyrkja hafa notið. Þetta eru myndirnar Með allt á hreinu, Dalalíf, Land og synir og Óðal feðranna en yfir 95 þúsund áhorfendur komu á hverja þeirra. Þær myndir sem hafi fengið lakasta aðsókn hafi hins vegar fengið rausnarlega styrki frá hinu opinbera en dæmi um slíkar myndir eru Myrkrahöfðinginn, Hin helgu vé, Draumadísir og Ein stór fjölskylda. Í leiðaranum er bent á að ekki séu glögg listræn skil á milli þessara mynda og ekki hægt að dæma þær ómerkari á nokkurn hátt sem fengu betri aðsókn.

Fyrir nokkrum misserum tók verkalýðshreyfingin upp á því að kvarta undan jaðaráhrifum skatt- og bótakerfisins. Kom það mörgum á óvart þar sem hún átti sjálft drjúgan þátt í að tekjutengingum ar komið á. Það kom því ekki síður á óvart þegar verkalýðshreyfingin fór að spila undir söng Samfylkingarinnar um fjölþrepa skattkerfi á síðasta ári. Fjölþrepa skattkerfi er vísasta leiðin til að auka jaðaráhrifin en þau letja fólk til vinnu sem síst er þörf á nú.

Össur Skarphéðinsson, sá stjórnmálamaður sem mest hefur barist gegn skattalækkunum ríkisstjórnarinnar, hefur lýst yfir því að hann sækist eftir formannsembætti Samfylkingarinnar. Athyglisvert var að sjá Össur tjá sig um ástæður framboðsins í fréttum sjónvarpsstöðvanna í gær. Hamraði hann á því að hann teldi nauðsynlegt að skapa stóran og nútímalegan jafnaðarmannaflokk að evrópskri fyrirmynd á Íslandi. Því miður lét formannskandidatinn alveg vera að tala um stefnumál en slíkt er líklega aukaatriði þegar aðalatriðið er að búa til „stóran og nútímalegan“ flokk.

Hugsjón Össurar minnir óneitanlega á málflutning Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, og vel má vera að sá samanburður nái lengra ef grannt er skoðað. Síðan 1997 hefur Tony Blair ráðið því sem hann vill ráða í breska Verkamannaflokknum, enda með flokkseigendafélagið á bak við sig. Nú nýlega gerðist það hins vegar að í ljós kom að kjósendur í Lundúnum höfðu ekki sömu hugmyndir og Tony Blair um það hver ætti að gegna nýju borgarstjóraembætti í borginni. Forsætisráðherrann vildi fá meðfærilegan flokksgæðing en borgarbúar „Red KenLivingstone, sem margoft hefur sagt flokksforystunni til syndanna. Blair og flokkseigendafélagið lögðu höfuðið í bleyti og smíðuðu reglur, sem gerðu það að verkum að atkvæði almennra félaga Verkamannaflokksins vógu aðeins þriðjung og Red Ken hafði því í raun tapað forkosningunni áður en hún hófst. Afleiðingin er sú að Red Ken hefur nú ákveðið að fara fram sem óháður frambjóðandi og á mikla möguleika á sigri samkvæmt skoðanakönnunum.

Í Samfylkingunni er staðan sú að flokkseigendafélög Alþýðuflokks og Alþýðubandalags hafa ákveðið að styðja Össur til formennsku. Gallinn er hins vegar sá að Jóhanna Sigurðardóttir nýtur mikilla vinsælda meðal almennra kjósenda Samfylkingarinnar. Það kom vel fram fyrir réttu ári þegar hún hlaut örugga kosningu í fyrsta sæti á þinglista Samfylkingarinnar í Reykjavík í opnu prófkjöri og burstaði m.a. Össur. Þau úrslit voru flokkseigendafélögunum ekki að skapi og þau hafa nú smíðað reglur, sem eiga að tryggja að Jóhanna eigi ekki möguleika að ná kjöri, gerist hún svo ósvífin að bjóða sig fram til formanns. Ef fleiri en Össur bjóða sig fram, munu tvær umferðir fara fram í formannskjörinu. Atkvæði almennra félagsmanna Samfylkingarinnar munu þá aðeins gilda í fyrri umferð (nema einn kandidat fái hreinan meirihluta) en fulltrúar flokkseigendafélaganna munu einir fá að kjósa í síðari umferð, þ.e. í þeirri umferð sem mun hafa úrslitaáhrif.

En þrátt fyrir að Össur fái margar hugmyndir að láni frá Blair, leggur hann sig þó fram um að vera eins ólíkur breska forsætisráðherranum og hægt er að einu leyti. Blair hjónin leggja mikla áherslu á að halda einkalífinu aðskildu frá pólitíkinni og láta börn sín vera í friði fyrir fjölmiðlum. Um síðustu helgi fengu þau t.a.m. sett lögbann á nærgöngular frásagnir ensku sorppressunnar af fjölskyldulífi sínu. Össur notar hins vegar hvert tækifæri til að fjalla opinberlega um fjölskyldu sína, halda börnum sínum fram og fá birtar myndir af þeim í fjölmiðlum. Sjónvarpsviðtal við Össur í gær var t.d. ríkulega myndskreytt af portrett-myndum af ungum börnum hans þótt vandséð væri hvaða hlutverki fjölskylda hans muni gegna í komandi formannskjöri.