Á sama tíma og ríkisstjórnin kynnir enn frekari aðgerðir til að fá landsmenn til að greiða enn meira í lífeyrissjóði, þar sem slá þurfi á þenslu og auka sparnað, boðar hún ný jarðgögn fyrir 10 milljarða króna á næstu 8 árum. Fyrstu göngin verða boruð fyrir um 5 milljarða handa 1.500 Siglfirðingum. Það gera tæpar þrjár milljónir króna á hvert mannsbarn á þeim bænum. Ef að ríkið keypti eitt þúsund jeppa handa Siglfirðingum á tæpar þrjár milljónir hvern væri kostnaðurinn „aðeins“ um 1,5 milljarður (þar sem ríflega helmingur jeppaverðsins er skattar). Tekur einhver mark á þenslutalinu í þingmönnum, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, þegar þeir fara á svona útgjaldafyllerí?
Á sama tíma og Samband ungra sjálfstæðismanna leggur til að tekjur af sölu ríkisfyrirtækja verði nýttar til að grynnka á skuldum ríkisins og draga þar með úr vaxtakostnaði ríkissjóðs kemur samgönguráðherra fram í fjölmiðlum með tillögur um að eyða tekjunum í jarðgöng.
Á Vísi hafa menn kosið um það að undanförnu hvort þeir styðji Ólaf Ragnar Grímsson til áframhaldandi setu á forsetastóli. Niðurstaðan var birt í fyrradag eftir að 7.573 höfðu greitt atkvæði. Af þeim sem þátt tóku sögðust 3.367 eða 45% ekki styðja Ólaf Ragnar Grímsson. Kemur þetta ef til vill einhverjum á óvart þar sem engir aðrir en Ólafur og Rafn Geirdal nuddari hafa sýnt embættinu áhuga. Þegar til þess er litið að fortíð Ólafs Ragnars í stjórnmálum er óvenjulega lítið til eftirbreytni þarf hins vegar ekki að undrast niðurstöðuna. Og niðurstaðan er enn ein staðfesting þess að Ólafur Ragnar Grímsson mun aldrei verða það „sameiningartákn“ Íslendinga sem talað er um á tyllidögum að forseti eigi að vera. Seta Ólafs Ragnars í embætti forseta Íslands er ein og sér næg röksemd fyrir því að forsetaembættið ætti að leggja niður, en fyrir því eru einnig aðrar ástæður. Íslendingar þurfa engan forseta og því er þetta embætti hreinn og rándýr óþarfi sem leggja ætti niður hið fyrsta.