Kostnaður ríkisins mun sexfaldast, úr 7 milljónum í 42 milljónir á ári, verði frumvarp um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga að lögum. Ástæðan er sú að þá verður Tölvunefnd lögð niður en stofnunin Persónuvernd sett á laggirnar með tilheyrandi auknu mannahaldi og umsvifum. Í umræðum um málið í fyrradag var aðeins einn þingmaður, Pétur H. Blöndal Sjálfstæðisflokki, sem benti á þessa tilhneigingu ríkisins til útþenslu og taldi hann að Alþingi samþykkti að meðaltali eina nýja stofnun á um tveggja vikna fresti.
En vissulega skiptir fleira máli varðandi þessa nýju Persónuvernd en kostnaðurinn sem henni verður samfara. Lúðvík Bergvinsson þingmaður Samfylkingarinnar færði til dæmis í tal þá staðreynd að í upptalningu í frumvarpinu um það sem teljast vera „viðkvæmar persónuupplýsingar“ er ekki orð um fjármál manna. Meðferð „viðkvæmra persónuupplýsinga“ er háð strangari skilyrðum en annarra persónuupplýsinga og í frumvarpinu teljast þessar viðkvæmu upplýsingar m.a. vera upplýsingar um uppruna, litarhátt, stjórnmálaskoðanir, heilsuhagi og stéttarfélagsaðild svo nokkuð sé nefnt. Allt geta þetta verið viðkvæm atriði fyrir fólk en það eru fjárhagsupplýsingar ekki síður. Menn kæra sig almennt ekki um að verið sé að hnýsast í slík einkamál þeirra.
Eitt dæmi óþolandi hnýsni í einkalíf fólks er þegar skattskýrslur eru lagðar fram á hverju ári, ekki síst þegar teknir eru saman sérstakir listar yfir hæstu skattgreiðendur! Tekjur fólks eiga að vera einkamál þess og þegar verið er að setja ný lög um meðferð persónuupplýsinga er sjálfsagt að tekið sé á slíkum atriðum.
Það er útbreiddur misskilningur að fólksfjölgun fari vaxandi. Þessi misskilningur kom meðal annars fram í kjallaragrein eftir Guðmund G. Þórarinsson verkfræðing í DV í haust. Staðreyndin er þvert á móti sú að hægt hefur á fjölguninni undanfarna áratugi. Fólki fjölgaði um 22% á milli áranna 1960 og 1970 en um 15% á þeim áratug sem senn er á enda. Fjölgunin í einstaklingum var um það bil sú sama á níunda áratugnum og þeim tíunda. Á árunum 1960-65 áttu konur heimsins að meðaltali 5 börn. Á árunum 1990-95 var meðaltalið komið niður í 3 börn. Í þróuðustu löndunum í dag eiga konur aðeins 1,7 börn að meðaltali. Auknar lífslíkur hafa að sjálfsögðu unnið gegn þessari þróun um hægari fólksfjölgun en allir hljóta að fagna lengri meðalævi fólks. Nýfætt barn getur búist við því að lifa í 64,3 ár í dag en gat aðeins gert ráð fyrir 46,5 æviárum árið 1950. Mannfjöldastofnun Sameinuðu þjóðanna gerir ráð fyrir að fólki fari að fækka á árunum 2040 til 2075.
Allt frá því enski klerkurinn Thomas Malthus spáði því árið 1798 að hungur væri óhjákvæmilegt þar sem maðurinn fjölgaði sér hraðar en matvælaframleiðslan gæti annað, hafa bölsýnismenn reynt að telja fólki trú um að fólksfjölgun sé vandamál og leiði til auðlindaþurrðar og matarskorts. Þrátt fyrir að mannkynið hafi tvöfaldast frá árinu 1950 hefur matvælaframleiðsla á mann aukist um tæp 20% á sama tíma. Vissulega búa sumar þjóðir enn við hungur en það hefur ekkert með fjölda fólks í heiminum að gera heldur er það afleiðing af stríði og/eða sósíalisma. Málmar og aðrar hrávörur úr náttúrunni hafa einnig flestar lækkað í verði á undanförnum áratugum sem bendir ekki til yfirvofandi skorts.