Laugardagur 5. febrúar 2000

36. tbl. 4. árg.

„Finnst engum það til dæmis neitt skrýtið að, að sömu konurnar og hafa um árabil barist fyrir launajafnrétti skuli róa að því öllum árum að svipta dansmeyjar frá Eystrasltsríkjunum eina kosti þeirra til þess að komast frá fátækt til bjargálna? Eða er eitthvað um það í femínískum fræðum að konur megi einvörðungu hafa atvinnu af langskólagengnu heilabúi? Engum finnst skrýtið að í stétt dyravarða veljist fremur heljarmenni en hortittir, en ættu karlmenn einir að sitja að því að fá störf í krafti líkamsburða? Það er erfitt að verjast þeirri hugsun, að sumum kvenréttindakonum finnist óþolandi að ómenntaðar konur geti haft háar tekjur.“, sagði Andrés Magnússon vefari í grein í Morgunblaðinu í gær þar sem hann veltir því fyrir sér hvers vegna þeir sem sækja ekki nektardansstaðina séu svo sólgnir í að banna starfsemi þeirra.

Andrés vitnar einnig í orð yfirlögregluþjóns í Reykjavík sem lét hafa eftir sér að „lögreglan hafi vísbendingar um tengsl starfsemi [nektardansmeyjanna] og fíkniefnainnflutnings og síðan hafi komið í ljós þrjú til fjögur mál sem sýni fram á þetta.“ Það er auðvitað fyrir neðan allar hellur að lögreglan skuli stilla öllum dansmeyjum upp í sakbendingu götunnar þegar þrjár eða fjórar þeirra eru gripnar með fíkniefni. Þetta er ekki gert þegar til dæmis bakari eða sjómaður eru ákærðir fyrir slík brot. Við lok greinar sinnar segir Andrés það ekki síður nöturlegt hve fáir séu dansmeyjunum til varnar en að á þær skuli ráðist af fólki sem vill hafa vit fyrir öðrum.