Föstudagur 4. febrúar 2000

35. tbl. 4. árg.

Erfðabreytt matvæli hafa verið nokkuð til umræðu að undanförnu. Sjálfskipaðir umhverfisverndarsinnar hafa varað við notkun þeirra. Þessir sömu umhverfisverndarsinnar eru raunar yfirleitt andvígir öllum framförum í vísindum og tækni og m.a. neituðu græningjar á þýska þinginu að nota tölvur á sínum tíma þar sem þær væru afsprengi iðnvæðingarinnar! Þessir sömu græningjar treysta hins vegar flóknum tölvulíkönum sem spáð hafa fyrir um mikla hækkun hita á jörðinni vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa þótt spár þessara líkana hafi algjörlega brugðist fram að þessu.

Í fyrradag ritaði Einar Mäntylä plöntuerfðafræðingur grein í Morgunblaðið um erfðabreytt matvæli. Einar bendir á að með erfðatækni megi frá mun meiri uppskeru af  ræktarlandi en nú, bæta megi næringarinnihald og auka þol plantna gagnvart bakteríum, skordýrum, þurrki og fleiru. Með þessu megi tryggja næga og næringarríka fæðu fyrir alla jarðarbúa. Svo segir Einar: „Ljóst er að líftækni verður eðlilegur þáttur í matvælaframleiðslu og iðnaði komandi aldar, þó að nokkurs titrings gæti í Evrópu um þessar mundir, því afurðir og og lausnir byggðar á líftækni geta fyrirsjánlega fært okkur nær sjálfbærari og og umhverfisvænni umgengni við þessa einu jörð sem við höfum til yfirráða. Ekki veitir af. Ég vona sannarlega að Íslendingar taki ekki þátt í hinni ógrunduðu móðursýki gegn erfðabreyttum matvælum sem nú er víða í gangi, enda eru þau í flestum tilvikum betri, heilnæmari og umhverfisvænni en hefðbundin landbúnaðarframleiðsla iðnríkjanna. Sem neytandi vil ég eiga kost á því að velja betri og umhverfisvænni erfðabreytta afurð úti í kjörbúð handa mér og fjölskyldu minni og ég vænti þess að mér sem neytanda sé treyst til þess af bæði yfirvöldum og innflytjendum.“