Íbúðalánasjóður ríkisins á tæpan 50% hlut í þeirri útlánaaukningu til einstaklinga sem varð á síðasta ári. Á lánum sjóðsins er ríkisábyrgð sem lækkar vexti lánanna vafalaust frá því sem annars væri. Við þetta bætast svo vaxtabætur sem eru enn frekari niðurgreiðsla vaxta og verðbóta. Vaxtabæturnar stýra fólki frá því að fjármagna húsnæðiskaup með eigin sparnaði. Það er hagstæðara fyrir fólk að taka eins mikil lán og mögulegt er í stað þess að nota eigin fjármuni til kaupanna. Eigin sparnað má þá ávaxta annars staðar eða bara endurnýja bílinn. Vaxtabæturnar eru þó ekki aðeins verðlaun fyrir skuldasöfnun heldur er fólki einnig refsað með þeim fyrir að afla sé aukinna tekna. Vaxtabæturnar eru tekjutengdar með þeim hætti að aukirðu tekjur þínar um 10.000 krónur lækka bæturnar um 600 krónur.
Í viðtali við Viðskiptablaðið í vikunni sagði Geir H. Haarde fjármálaráðherra að ríkið eigi sáralítinn þátt í aukinni verðbólgu og sagði svo : „Við höfum þvert á móti reynt að hamla gegn verðlagshækkunum t.d. með breytingum á bensíngjaldi. Stóran hluta verðlagshækkana má rekja beint til sérstakra þátta, t.d. bensíns, húsnæðis, fasteignagjalda, gjaldskrárhækkana sveitarfélaga o.fl.“ Ef þessi upptalning fjármálaráðherra er skoðuð nánar má ef til segja sem svo að þrátt fyrir breytingar á bensíngjaldi magni ríkið verðhækkanir á bensíni enn með mikilli skattheimtu. Vegna hárra skatta á bensín vegur það þungt í neysluverðsvísitölunni. Hækkun á fasteignaverði þarf ekki að koma á óvart þegar ríkið knýr eftirspurnina áfram með niðurgreiddum lánum. Fasteignagjöld fylgja fasteignaverði. Það eru því mistök af hálfu ríkisstjórnarinnar að lækka ekki þessar niðurgreiðslur til fasteignakaupa. Með því hefði dregið úr eftirspurn eftir húsnæði, húsnæðisverð ekki hækkað jafnskart og afgangur af fjárlögum aukist. Vissulega var erfitt að sjá þessa hækkun á fasteignaverði fyrir en á það hefur verið bent árum saman að vaxtabótakerfið hvetji til skuldasöfnunar. Launahækkanir undanfarinna ára hafa aukið svigrúm fólks til skuldsetningar og fullkomlega eðlilegt að fólk nýti sér þetta svigrúm þegar það er verðlaunað fyrir skuldasöfnun með vaxtabótum.
Í viðtalinu við Viðskiptablaðið segir fjármálaráðherra einnig: „Í þessu sambandi vil ég einnig benda á að einkavæðingu er hægt að beita í hagstjórnarskyni. Við viljum taka peninga úr umferð og svona aðgerð er tilvalin til þess. Jafnframt eykur þetta á sparnað þess fólks sem tekur þátt og styrkir stöðu bankanna. Á meðan við verjum þessum peningum ekki óskynsamlega er þetta jákvæð efnahagsaðgerð.“ Hér hreyfir ráðherrann athygliverðu máli. Hvað eru óskynsamleg ríkisútgjöld? Hvaða ríkisútgjöld eru eyðsla og auka títtnefnda þenslu? Eru það ekki meira og minna öll ríkisútgjöld? Þessi sömu útgjöld og hafa verið að aukast ár frá ári í krónum talið? Það er varla hægt að líta á ríkisútgjöld sem sparnað eða fjárfestingu nema að afar litlum hluta.
Að lokum er svo rétt að minna á það enn einu sinni að almenn verðhækkun er ekki orsök verðbólgu heldur afleiðing. Verð hækkar vegna þess að peningar lækka í verði. Offramboð á fé veldur verðfalli á því. Ótakmarkað framboð á niðurgreiddu lánsfé til húsnæðiskaupa fellir féð í verði gagnvart húsnæði.