Föstudagur 7. janúar 2000

7. tbl. 4. árg.

Eftir að Össur Skarphéðinsson þingmaður Alþýðuflokksins varð ritstjóri DV, frjáls óháðs dagblaðs, fóru að birtast í því „sandkornsmolar“, jákvæðir fyrir Össur Skarphéðinsson þingmann Alþýðuflokksins. Molar þessir höfðu þá sérstöðu meðal slíkra mola, að ekkert nafn blaðamanns stóð undir þeim. Þegar menn höfðu hent gaman að þessari skemmtilegu tilviljun breyttist þetta og undir slíkum molum stóð þá gjarnan nafnið Reynir Traustason.

Þessir tveir heiðursmenn, Össur og Reynir, tengjast svo lítillega fyrir tilviljun í blaðinu í gær. Þar skrifar Reynir Traustason mikla frétt um að nú sé gríðarlegur stuðningur við Össur Skarphéðinsson sem formannsefni Fylkingarinnar. Á forsíðuna er sett risafyrirsögn: „Margrét og Sighvatur taka af skarið varðandi formann Samfylkingarinnar: Styðja Össur“ og á baksíðu er mikil frétt um þau tíðindi sem nú eru að verða á lítilli eyju í miðju Atlantshafinu.

Í fréttinni hefur DV reyndar ekki orð eftir þeim Margréti og Sighvati, en hefur þess í stað náð í tvo nafngreinda menn og þvingar þá til sagna. Blaðið hittir svo vel á að ná í sjálfan Vilhjálm Vilhjálmsson, 5. varamann Fylkingarinnar í Reykjavík, og hinn er einn af forystumönnum Fylkingarinnar og því öllum hnútum kunnugur og heitir Össur Skarphéðinsson, rétt eins og þingmaðurinn. Vilhjálmur segir að margir telji „bráðnauðsynlegt“ að fá Össur sem formann en Össuri Skarphéðinssyni kemur þetta allt mjög á óvart.

Þessu fylgir Stöð 2 svo eftir með mikilli frétt um málið og nær tali af einum manni. Sá maður heitir líka Össur Skarphéðinsson og hann staðfestir það sem DV hefur sagt: Það er mikið rætt um Össur Skarphéðinsson sem næsta leiðtoga Fylkingarinnar. Össur lætur þess getið að þetta komi Össuri Skarphéðinssyni alþingismanni mikið á óvart en að sjálfsögðu muni Össur skoða þetta mjög vandlega fyrst svona mikið sé skorað á Össur. Að lokum bætir hann því við að mikilvægt sé að einhugur og sátt verði í formannsvalinu og er auðheyrt að sem hlutlaus maður úti í bæ telur hann heppilegast að menn sameinist bara um þann sem allir eru að tala um. Og það er Össur Skarphéðinsson alþingismaður. Alnafni hans.