Utanríkisþjónustan er alltaf að auka umsvifin og önnur ráðuneyti láta ekki sitt eftir liggja í alþjóðlegu samstarfi. Sendiráð eru opnuð að ógleymdum „viðskiptaskrifstofunum“ sem haldið er úti hér og hvar. Vefþjóðviljinn hefur af og til gagnrýnt þessa þróun og hvatt til sparnaðar á þessu sviði. En hann er ekki sá fyrsti til þess. Íslenska lýðveldið var ekki margra vikna gamalt þegar skáldið Tómas Guðmundsson sá ástæðu til að rita eftirfarandi orð:
„Það hefur jafnan þótt nokkur skortur á innri háttvísi að berast meira á en góðu hófi gegnir, og væntanlega verður það eitt af vandasömustu viðfangsefnum vors unga lýðveldis að temja sér þann virðuleik, sem hæfir menningu vorri og þá hófsemi, sem bezt fer efnahag vorum og ástæðum. Þess verður naumast krafizt af oss með nokkurri sanngirni, að vér höldum uppi gagnvart öðrum ríkjum íburði og rausn margfalt stærri þjóða, enda mundum vér aldrei til langframa afla oss trausts að hætti þeirra manna sem telja meira fram til skatts en efni standa til. Enn sem komið er mun einnig fullrar háttvísi vera gætt í utanríkisþjónustu vorri, en sú hætta er þó stöðugt nálæg, að vér látum smám saman, og fyrir metnaðarsakir, leiðast lengra í þessum efnum en oss væri hollt og talizt gæti „fínt“.“
Undir þessi orð Tómasar má taka. Þó segja megi að heimurinn breytist sífellt og hverju landi sé mikilvægt að eiga góð samskipti við önnur, þá verða menn í þessum efnum sem öðrum að gæta hófs. Sparnaður hins opinbera er einnig afar mikilvægur og því er mönnum hollt að hugleiða þessi tæplega 56 ára gömlu viðvörunarorð skáldsins. Það fer líka vel á því í dag, þegar 99 ár eru liðin frá fæðingu Tómasar Guðmundssonar.
Sjómannaafslátturinn hefur oft og réttilega verið gagnrýndur, enda er með honum verið að hygla sjómönnum á kostnað annarra skattgreiðenda. Aðstoð í baráttunni fyrir betra skattkerfi hefur nú borist úr óvæntri átt. Í lok síðasta mánaðar var haldinn aðalfundur Sjómannafélags Hafnarfjarðar og þar kom fram sú krafa að „ríkisstjórn og Alþingi láti af síendurteknum afskiptum sínum af kjarasamningum sjómanna“. Ekki er nokkur ástæða fyrir Alþingi til annars en verða við þessari ósk sjómanna með því að afnema sjómannaafsláttinn og láta sjómenn og útgerðarmenn semja um launakjörin sín á milli án aðstoðar ríkisins.