Miðvikudagur 5. janúar 2000

5. tbl. 4. árg.

Í dag eiga um 76 milljónir Bandaríkjamanna bréf í hlutafélögum eða hlutabréfasjóðum. Þeim hefur fjölgað um 126% á síðustu 15 árum. Við síðasta skattframtal töldu 79 þúsund Íslendingar fram hlutabréf og hefur þeim fjölgað verulega undanfarin 15 ár. 35 þúsund Íslendingar nýttu sér skattfrádrátt vegna kaupa á hlutabréfum á árinu 1998. Það er því álíka stórt hlutfall Íslendinga sem á hlutabréf og Bandaríkjamanna. Líklega eiga þó Bandaríkjamenn að meðaltali meira af bréfum en við enda verið lengur að.

Vafalaust á skattaafsláttur vegna hlutabréfakaupa einhvern þátt í því að eigendum þeirra hefur fjölgað svo mjög hér á landi. En fleira kemur til. Frelsi á fjármagnsmarkaði og tilkoma verðbréfaþings voru auðvitað forsendan fyrir þessu. Einkavæðing stórra ríkisfyrirtækja með áskrift til almennings hefur einnig ýtt undir þessa þróun. Hlutabréfasjóðir, sem gegna sama hlutverki fyrir litla fjárfesta og dreift eignasafn fyrir stóra fjárfesta, hafa gefið almenningi möguleika á að fjárfesta í raun í mörgum hlutafélögum án mikils viðskiptakostnaðar. Umfjöllun um fjármál hefur einnig aukist verulega. Það gleymist stundum þegar breytingar verða til batnaðar að það eru ekki aðeins stjórnmálamenn sem stuðla að þeim. Viðskiptablaðið og fleiri blöð hafa efalítið flýtt fyrir þeirri viðhorfsbreytingu til fjármálalífsins sem átt hefur sér stað. Ekki má heldur gleyma öllum tækninýjungunum, eins og netinu, sem hafa lækkað viðskiptakostnað verulega.

Hér í Vef-Þjóðviljanum hefur skattaafslátturinn vegna hlutabréfakaupa verið gagnrýndur eins og aðrar undanþágur frá skatti. Niðurgreiðslur af þessu tagi brengla markaðinn. Fé leitar annað en það hefði annars gert og viðskipti dreifast með öðrum hætti innan hvers árs. Það eru ekki allir í aðstöðu til að nýta sér þennan afslátt. Hann hentar hvorki þeim sem hafa lægstu tekjurnar þar sem þeir greiða hvort eð er engan tekjuskatt né þeim sem ekki geta bundið sparifé sitt til fimm ára eins og krafist er. Ekki má heldur fjárfesta í erlendum hlutafélögum í þessu skyni eins og eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemdir við. Best væri að afnema alla skattaafslætti af þessu tagi, hvort sem þeir eru vegna þess að menn kaupa hlutabréf, ríkisverðbréf, stunda sjóinn eða vinna hjá RÚV. Í staðinn má lækka almenn skatthlutföll og auka ráðstöfunartekjur fólks – og gefa því þannig færi á að auka sparnað og þátttöku í atvinnurekstri.