„Ef til vill verður einhvern tíma sagt um tuttugustu öldina að með henni hafi baráttunni um hugmyndafræðina lokið. Við aldamót hafi flestum verið orðið ljóst að hagkerfi frjálsra viðskipta og heilbrigðrar samkeppni hefði algjöra yfirburði yfir það kerfi sem reiddi sig á miðstýringu og áætlanabúskap og fylgdi því eftir með ofbeldi og kúgun. Sigur frelsisins á forræðishyggjunni er eitt mesta fagnaðarefni á öldinni og forsenda þeirrar bjartsýni og heillaspár sem nýja öldin fær í vöggugjöf.“, sagði Davíð Oddsson forsætisráðherra í áramótaávarpi sínu.
Það er rétt hjá forsætisráðherra að líklega hefur sú hugmynd, að ríkið geti með miðstýrðu átaki tryggt jafna niðurstöðu fyrir alla, verið ofurliði borin af reynslunni. Hinar tvær meginhugmyndir samhyggjunnar, þjóðernissósíalisminn og kommúnisminn, eiga ekki lengur greiða leið að hugum fólks. Þær virðast ekki líklegar til að hljóta mikinn stuðning í lýðræðislegum kosningum nú um stundir. Að minnsta kosti ekki undir sínum gömlu vörumerkjum. En hvað varð um stuðningsmenn þessara hugmynda? Hvert hafa þeir snúið sér? Sérstaka athygli ber að veita þeim sem viðurkenndu aldrei að þeir hefðu haft rangt fyrir sér. Hvað varð til dæmis um harðasta kjarnann úr Alþýðubandalaginu?
Ef að þessi hópur hefur snúið sér að einhverri annarri stefnu, eða að minnsta kosti stefnu með öðru nafni, er það umhverfisverndarhyggjan. Þessi hópur starfar nú að stórum hluta í flokki vinstri-grænna. Svipaða sögu er að segja frá öðrum löndum. Hörðustu kommarnir eru nú hörðustu umhverfisverndarsinnarnir. Þessi umhverfisverndarstefna gengur í grófum dráttum út á það að jafna ekki aðeins niðurstöðuna milli manna, eins og gamli sósíalisminn gerði, heldur einnig milli mannsins og náttúrunnar. Nú eru það ekki aðeins öreigarnir sem eiga undir högg að sækja í auðvaldsskipulaginu heldur einnig náttúran, að mati þessara fyrrnefndu sósíalista og nú sjálfskipuðu umhverfisverndarsinna. Og hverjar eru lausnir umhverfisverndarhyggjunnar? Þær sömu og gamla sósíalismans: Víðtæk ríkisumsvif, boð og bönn, háir skattar, þjóðnýting á náttúruauðlindum o.s.frv. Þeir sem voru fremstir í flokki mótmælenda á fundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um aukið frelsi í heimsviðskiptum í Seattle í desember voru einmitt þessir umhverfisverndarsinnar. Nú er það ekki aðeins jafnrétti milli manna sem þessir hópar krefjast heldur einnig jafnrétti milli mannsins og náttúrunnar. Náttúran hefur tekið við af öreigunum sem helsta afsökunin fyrir því að frelsi fólks sé skert. Stéttabaráttan hefur vikið fyrir baráttu milli mannsins og náttúrunnar.
Auðvitað er það hjákátlegt að þeir sem áður börðust undir merkjum sósíalismans skuli vera taldir trúverðugir í umhverfismálum, af öllum málum. Í fyrrum draumaríkjum þessa fólks í Sovét og Austur-Evrópu var nýting auðlinda og umgengni við náttúruna með þeim hætti að engum ætti að koma til hugar að leita ráðlegginga hjá vinstri-grænum um umhverfismál. Með stefnu sinni vilja vinstri-grænir, bæði hérlendis og erlendis, koma í veg fyrir að náttúran sé verðlögð. Þeir boða sem fyrr segir víðtæk ríkisafskipti, þjóðnýtingu á landi og mikilvægum náttúruauðlindum, viðskiptahindranir og háa skatta. Þessi atriði koma öll í veg fyrir að náttúran og auðlindir hennar séu verðlagðar og þar með nýttar af skynsemi. Niðurstaðan er sú sama og þegar stefnan hét aðeins vinstri en ekki vinstri-græn eins og nú er. Vinstri-grænir eru nú næststærsta stjórnmálaaflið hér á landi samkvæmt skoðanakönnunum. Baráttunni um hugmyndafræðina er ekki lokið.