Laugardagur 25. desember 1999

359. tbl. 3. árg.

Að morgni Þorláksmessu var kveðinn upp í Félagsdómi dómur, sem miklu varðar í baráttunni fyrir félagafrelsi hér á landi. Félagsdómur viðurkenndi þar rétt 17 vélfræðinga, sem starfa hjá Reykjavíkurborg, til að fela Vélstjórafélagi Íslands samningsumboð við borgina fyrir sína hönd í stað Starfsmannafélags Reykjavíkur. Vélfræðingarnir hafa barist fyrir þessum rétti sínum í 14 ár en af hálfu Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélagsins hefur því verið haldið fram, að vegna ákvæða laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna beri viðkomandi mönnum skylda til að vera aðilar að Starfsmannafélaginu og lúta forsjá þess í kjarasamningum. Félagsdómur taldi hins vegar að þessi lagaákvæði færu í bága við félagafrelsisákvæði stjórnarskrár og Mannréttindasáttmála Evrópu og því bæri að víkja þeim til hliðar. Er sú niðurstaða fagnaðarefni, ekki síst í ljósi þess að fjölmargir aðrir hópar opinberra starfsmanna hafa búið við svipaðar aðstæður og vélfræðingarnir og dómurinn kann að hafa mikilvægt fordæmisgildi varðandi rétt þeirra til að brjótast úr fjötrum þess lénsfyrirkomulags, sem verkalýðsrekendur í opinbera geiranum hafa komið upp á undanförnum árum og áratugum.

Niðurstaðan í máli vélfræðinganna er fagnaðarefni svo langt sem hún nær. Vef-Þjóðviljinn kemst hins vegar ekki hjá því að minna á, að enn er langt í land hér á Íslandi að fullt félagafrelsi ríki á vinnumarkaði. Þorri launþega á almennum vinnumarkaði býr enn við þær aðstæður, að verkalýðsfélög og vinnuveitendafélög semja um það sín á milli að allir launþegar í tiltekinni starfsstétt á tilteknu svæði verði að vera félagar í tilteknu verkalýðsfélagi, hvort sem þeir hafa áhuga á því eða ekki. Ella fái þeir ekki vinnu. Breytingar á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar 1995 voru ófullkomnar að þessu leyti og niðurstaðan varðandi félagafrelsisákvæðið er alls ekki ásættanleg. Frjálslyndir menn munu ekki linna baráttunni fyrir félagafrelsi á Íslandi fyrr en tryggt er að enginn verði með lögum neyddur til aðildar að félagi sem hann vill ekki vera í, hvort sem um er að ræða skólafélag, verkalýðsfélag eða félag af einhverju öðru tagi.