Út er komin bókin Stjórnmálaheimspeki hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi. Höfundur bókarinnar er Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor og fjallar hann í henni um fimm frumhugtök stjórnmálanna; frelsi, lög, ríkisvald, réttlæti og lýðræði. Bókin er rúmar 280 blaðsíður og tekst höfundi að fjalla um býsna margt á þeim síðum, s.s. þær skorður sem frelsi manna eru settar og hvers vegna frelsi er eftirsóknarvert, um náttúrurétt og vildarrétt og ólík viðhorf til ríkisvaldsins. Jöfnuður, tekjuskipting og fleira er rætt í tengslum við réttlætishugtakið auk þess sem svokölluðu félagslegu réttlæti eru gerð nokkur skil. Í lokakaflanum um lýðræði er svo reynt að finna út hvaða leikreglur þurfi að vera til staðar til að hægt sé að ná fram því þjóðfélagi sem menn álíta ákjósanlegt.
Hannes ræðir m.a. um hvort óheft lýðræði sé æskilegt. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki og lýðræðinu þurfi að setja skorður. Út úr lýðræði sem ekki býr við neinar skorður geti t.d. komið ákvarðanir þar sem ekki er hugað að langtímahagsmunum. Hann nefnir líka sem dæmi skattamál, bæði hefðbundna skattheimtu og dulda skattheimtu í formi verðbólgu. Um slíka skatta segir hann: „Menn vita ekki af þeim og hafa aldrei samþykkt þá. Stjórnarherrar hafa farið leið minnsta viðnáms í skattamálum hérlendis sem erlendis og afleiðingin orðið önnur en almennt samkomulag getur orðið um.“ Til að draga úr skattheimtuvaldi þingmanna nefnir Hannes þá hugmynd að aukinn meirihluta þurfi til að leggja á nýja skatta eða hækka þá sem fyrir eru.
Ekki er ofmælt að Hannes hefur um tveggja áratuga skeið verið með ákveðnustu talsmönnum frjálshyggju á Íslandi. Þetta breytir þó ekki því að sjónarmiðum félagshyggjumanna er komið ágætlega til skila í bókinni. Það er auk þess athyglisvert að sjá hvernig íhaldsmaðurinn blandast frjálshyggjumanninum þegar ýmis siðferðileg álitaefni eru til umræðu og eins þegar hann ræðir um íslenska örninn. Hann vill heldur ekki ganga eins langt og ýmsir frjálshyggjumenn sem kjósa að hafa aðeins lágmarksríki, þ.e. ríkisvald sem sér aðeins um að halda uppi lögum og reglu. Telur hann að auk þess sé æskilegt að ríkið sjái mönnum fyrir lágmarksafkomu og lágmarksmenntun.
Ætlun höfundar er að bókin sé ekki aðeins „rit á íslensku, heldur íslenskt rit“, eins og segir í formála. Af þeim sökum eru fjölmörg íslensk dæmi spunnin inn í stjórnmálaheimspekina og rætt um hugmyndir annarra íslenskra fræðimanna á ýmsum viðfangsefnum bókarinnar. Má gera ráð fyrir að íslenskum lesendum þyki flestum fengur að þessari framsetningu enda tengist bókin þar með betur íslenskri sögu og þeim viðfangsefnum sem menn fást við í stjórnmálum hér á landi nú á dögum. Þó þykir ýmsum líklega að nokkuð langt sé gengið í íslenskun á ýmsum mannanöfnum, eins og Friedrich og David. Auk þess virðist ósamræmi í þessu þar sem nöfnin John og Harold eru t.d. ekki þýdd. Þetta eru þó smekksatriði og eru þar fyrir utan aukaatriði og koma efni bókarinnar ekki við. Efni bókarinnar er hins vegar ekki að neinu leyti aukaatriði heldur skiptir miklu máli hvaða afstöðu menn taka til þeirra fimm frumhugtaka stjórnmálanna sem í henni eru rædd. Þeir, sem vilja skerpa á hugsun sinni og afstöðu til þessara frumhugtaka, verja tímanum ágætlega með því að lesa þessa bók.