Á dögunum gagnrýndi Hjálmar Árnason, þingmaður Framsóknarflokksins, skipulagsstjóra ríkisins harðlega úr ræðustóli á Alþingi. Stjórnarandstaðan tók því afar illa og stóryrtir þingmenn hennar fylltust réttlátri reiði yfir því að verið væri „á Alþingi að gagnrýna embættismann sem ekki getur borið hönd fyrir höfuð sér“.
Þótti þeim ekki einmitt líka svo leiðinlegt um árið þegar árásirnar gengu úr þingsalnum á þáverandi framkvæmdastjóra Ríkissjónvarpsins, Hrafn Gunnlaugsson?
Hnefaleikar hafa verið bannaðir hér á landi í 43 ár, en nú stendur það til bóta. Fyrir Alþingi liggur frumvarp sem felur í sér að ólympískir hnefaleikar verða leyfðir hér á landi ef það verður að lögum. Líklegt má telja að svo verði. Í greinargerð með frumvarpinu er bent á að alvarleg slys séu óþekkt í ólympískum hnefaleikum, sem oft eru kallaðir áhugamannahnefaleikar, enda eru strangari öryggiskröfur gerðar í þeim en í atvinnumannahnefaleikum. Loturnar í áhugamannahnefaleikum eru aðeins þrjár á meðan þær eru tólf í atvinnumannahnefaleikum og allir verða að hafa sérstakan hjálm til að hlífa höfðinu þegar keppt er meðal áhugamanna. Ein röksemdin sem fram kemur í greinargerðinni fyrir því að leyfa áhugamannahnefaleika er eftirfarandi: „Lögð er áhersla á að það á að vera á valdi hvers einstaklings að ákveða hvaða íþrótt hann kýs að stunda.“
Jákvætt er að þingmenn skuli vera þessarar skoðunar, því allt of oft sést í lagafrumvörpum og umræðum á Alþingi að þingmenn telja sig kosna til að hafa vald yfir einstaklingum um slík mál. Hér er ekki aðeins átt við hvaða íþróttir einstaklingar megi stunda heldur einnig ýmsa aðra iðju. Þingmenn fara æði oft í hlutverk foreldra og leiðbeinenda fullorðins fólks þegar þeir setja því reglur á Alþingi. Þeir segja fólki t.d. að það eigi að vera í öryggisbelti þegar það situr í bíl, þeir segja því að það megi ekki neyta ákveðinna vímugjafa og þeir hyggjast reyndar áfram segja því að það megi ekki stunda aðra hnefaleika en þá sem teljast „ólympískir“. Og einu má bæta við sem menntamálaráðherra hefur ítrekað bent á í skrifum á heimasíðu sinni síðustu vikur, en það er að embættismenn ríkisins nýta lagaheimildir til að banna fólki að neyta ákveðinna bætiefna sem leyfð eru í öðrum löndum.
Ákvarðanir um allt það sem hér er nefnt auk margs annars ættu að vera á hendi einstaklinganna sjálfra en ekki ríkisins. Þó ákveðin hegðun kunni að skaða ákveðinn einstakling er ekki þar með sagt að hana eigi að banna. Einstaklingarnir verða sjálfir að hafa svigrúm til að gera upp hug sinn um það hvernig þeir vilja lifa sínu lífi. Það er jú það sem þetta er, – þeirra líf. Þess vegna hefði verið æskilegra að frumvarpið hefði falið í sér að heimila allar gerðir hnefaleika í stað þess að heimila aðeins eina ákveðna gerð. Þrátt fyrir að þannig megi finna að frumvarpinu er ekki vafi að áhugamenn um hnefaleika kætast ef og þegar það verður að lögum og áhugamenn um frelsi einstaklingsins hljóta einnig að líta á það sem skref í rétta átt.