Helgarsprokið 19. desember 1999

353. tbl. 3. árg.

Í fyrri hluta nýrrar bókar sinnar, Moskvulínunnar, rekur Arnór Hannibalsson prófessor samskipti íslenskra sósíalista við skoðanabræður þeirra sem brotist höfðu til valda með ofbeldi í Rússlandi 1917. Af þeim gögnum að dæma sem Arnór hefur viðað að sér í skjalasöfnum í Rússlandi er ljóst að þessi samskipti voru mjög einhliða. Íslenskir sósíalistar fengu fyrirmæli frá Kreml um afstöðu til manna og málefna. Íslenski kommúnistaflokkurinn var deild í móðurflokknum í Sovétríkjunum. Til dæmis fór það algjörlega eftir skipunum frá Moskvu hvort íslenskir kommúnistar leituðu eftir samstafi við sósíaldemókrata eða fordæmdu þá sem höfuðstoð auðvaldsskipulagsins. Gangur heimsmála fléttast inn í þessa frásögn enda fór afstaða íslenskra kommúnista og sósíalista til atburða í evrópskum stjórnmálum eftir skipunum frá Kreml. Þetta kom berlega í ljós þegar Hitler og Stalín gerðu griðarsáttmála 1939. Þá varð Hitler eins og hendi væri veifað alls góðs maklegur í hugum íslenskra sósíalista.

Raunar kemur það einnig fram í bókinni að sama gilti um aðra kommúnistaflokka í Evrópu. Þeir voru handbendi glæpamannanna í Kreml. Íslenskir kommúnistar með Einar Olgeirsson og Brynjólf Bjarnason fremsta í flokki unnu í umboði þessara glæpamanna að því að hneppa Íslendinga í sama þrældóm og Rússar bjuggu við í rúm sjótíu ár. Til dæmis um nána samvinnu sósíalista og þjóðernissósíalista (nasista) er eftirfarandi frásögn í Moskvulínunni: „Í maí 1932 flutti Wilhelm Pieck frumvarp í prússneska þinginu um að fella stjórn sósíaldemókrata. Nazistar studdu frumvarpið og það var samþykkt. Nazistar og kommúnistar mynduðu meirihluta í prússneska þinginu. Fyrsta verk þeirra var að samþykkja að gera upptækar eignir Gyðinga, sem höfðu setzt að í Þýskalandi eftir 1914. Í nóvember 1932 studdu kommúnistar ásamt nasistum verkfall samgönguverkamanna í Berlín. Sósíaldemókratar gátu ekki rönd við reist. Tólf dögum áður en Hitler kom til valda var prentuð ræða Walters Ulbrichts í Inprecorr (blaði Kominterns), þar sem hann lýsir því yfir sem fyrr, að höfuðsóknarþunginn verði að beinast gegn sósíaldemókrötum. Kommúnistar höfðu það mikinn styrk á sambandsþingi Þýzkalands eftir kosningar í nóvember 1932 að með bandalagi þeirra við andnazistaflokkana hefðu þeir getað komið í veg fyrir valdatöku Hitlers. Það eitt að sitja hjá í atkvæðagreiðslu hefði nægt til að bjarga Weimarlýðveldinu. En það var ekki gert.“

Í síðasta kafla þess hluta Moskvulínunnar sem fjallar almennt um samskipti íslenskra sósíalista við Kremlarbændur gerir Arnór því skóna að þráðurinn milli þeirra hafi alltaf verið óslitinn þ.e. allt frá því skömmu eftir valdaránið í Rússlandi 1917 og fram á níunda áratuginn. Hann vitnar í orð Einars Olgeirssonar við lát Stalíns árið 1953: „Með klökkum hug og djúpri virðingu hugsa allir þeir, sem berjast fyrir sósíalisma á jörðinni, til hins ógleymanlega, látna leiðtoga. Vér minnumst mannsins Stalíns, sem hefur verið elskaður og dáður meir en flestir menn í mannkynssögunni áður og naut slíks trúnaðartrausts sem fáir menn nokkur sinni hafa notið, – en lét sér aldrei stíga þá ást til höfuðs, heldur var til síðustu stundar sami góði félaginn, sem mat manngildið ofar öllu öðru, eins og þá er hann hóf fyrst starf sitt.“ Arnór vitnar einnig í stefnuskrá Alþýðubandalagsins frá 1975 en þar segir að flokkurinn: „reisi stefnu sína og starf á þjóðfélagsgreiningu marxismans“. Í forystugrein Þjóðviljans 14. ágúst 1977 segir einnig :„En gæfa Þjóðviljans og stjórnmálasamtaka íslenzkra sósíalista hefur verið sú, að þráðurinn frá því fyrsta til þessa dags er þrátt fyrir sitthvað sem á milli ber óslitinn. Þótt framtíðin sé verkefnið lifir fortíðin í okkur og við í henni.“ Og 8. janúar 1999 segir Svavar Gestsson í viðtali við Fókus: „[Einar Olgeirsson] var ótvíræður leiðtogi sósíalískra hugmynda á Íslandi á þessari öld sem er að kveðja; leiðtogi sem ekki verður metinn fyrr en eftir mörg ár sem skyldi og var í senn hataður, dáður og öfundaður af samtíð sinni og þess vegna reynt að þegja hann í hel. Sem ekki tekst.“
Bókin Moskvulínan er mikilvægt framlag til skilnings á samskiptum íslenskra sósíalista við einræðisherrana í Kreml. Ekki síst þar sem íslenskir sósíalistar neituðu ætíð að þeir tækju við skipunum eða fjárframlögum frá Sovétríkjunum.