Það kvað við annað hljóð í viðtali við Einar Þorsteinsson forstjóra Íslandspósts í Morgunblaðinu um helgina en heyrist oft frá forstjórum ríkisfyrirtækja. Íslandspóstur hefur enn einkaleyfi á dreifingu bréfa undir 250 grömmum en Einar hvetur eindregið til þess að einkaréttur fyrirtækisins verði afnuminn sem allra fyrst. Hann segir að það muni veita rekstrinum aðhald og koma viðskiptavinum til góða. Þá talar Einar með jákvæðum hætti um einkavæðingu póstfyrirtækja í Evrópu en þegar er búið að einkavæða hollenska póstinn og þýski pósturinn verður líklega seldur á næsta ári. Þetta viðhorf er ólíkt því sem landsmenn eiga að venjast frá forstjórum ríkisfyrirtækja, að ekki sé minnst á formenn stéttarfélaga ríkisstofnana. Þessum aðilum hættir mjög til þess að hanga eins og hundar á roði á því kerfi sem þeir hafa komið sér þægilega fyrir í.
20. október síðastliðinn var utandagskárumræða á Alþingi að kröfu Margrétar Frímannsdóttur talsmanns Samfylkingarinnar og formanns Alþýðubandalagsins. Tilefnið var að á lista yfir ríki þar sem kjarnavopn höfðu verið geymd var nafn Íslands ekki. Já, nafnið var ekki á listanum. Hins vegar voru eyður á listanum og með góðum vilja mátti finna út að Ísland kynni að eiga heima í einni af þessum eyðum. Þessi góði vilji var sem sagt til staðar hjá formanni Alþýðubandalagsins sem enn reynir að vera trú því starfi sem hún og fyrirrennarar hennar hafa sinnt, þ.e. að spilla varnarsamstarfi lýðræðisþjóðanna. Og þó kalda stríðinu sé lokið og bandamenn hennar og hugmyndafræði hafi tapað heldur þetta starf áfram.
Þeir sem veittu Margréti liðsinni í þessari umræðu voru Rannveig Guðmundsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Það olli vonbrigðum að sjá fulltrúa Alþýðuflokksins taka þátt í þessum leik, en aðrir gerðu það sem við mátti búast af þeim. Það má vera þessu fólki umhugsunarefni að nú er komið í ljós það sem ríkisstjórnin hélt fram allan tímann og þarf ekki að koma á óvart, nefnilega að Ísland var alls ekki á þessum lista. Á listanum var hins vegar eyjan Iwo-Jima.
Þetta var ekki í fyrsta skipti sem vinstri menn hlaupa af litlu eða engu tilefni á eftir flugufréttum erlendra „vísindamanna“ um að hér hafi verið kjarnorkuvopn. Hið sama gerðist árin 1980, 1984, 1995 og 1997. Næst þegar Íslands verður ekki getið í bandarískum skýrslum um kjarnorkuvopn má búast við að enn verði boðað til utandagskrárumræðu.