Laugardagur 11. desember 1999

345. tbl. 3. árg.

Nú hefur Þórhildur Líndal sent íslenskum módelskrifstofum bréf og heimtað að fá að vita hvað þær séu gamlar, fyrirsæturnar sem þær senda út í heim. Einkum vill Þórhildur fá að vita hvort nokkrar þeirra séu yngri en sextán ára. Fjölmiðlar hafa sagt frá þessu bréfi hennar og virðast allir þeirrar skoðunar að hún sé að þessu af umhyggju fyrir telpunum. En getur ekki verið önnur ástæða? Getur ekki verið að Þórhildur ætli bara að lokka þær í viðskipti hjá sér? Þegar allt kemur til alls þá er hún auðvitað… umboðsmaður barna.

Tæknifrjóvgun er þjónusta sem á stöðugt meiri vinsældum að fagna. Hér á landi þarf ekki að koma á óvart að ríkið er eitt um að veita þessa þjónustu, rétt eins og flesta aðra heilbrigðisþjónustu. Það þarf því heldur ekki að koma á óvart þótt biðraðir myndist eftir þessari þjónustu eins og annarri þjónustu ríkisins. Þannig var skondið að fylgjast með umræðum um málið í morgunþætti Stöðvar 2 í vikunni. Þar var kominn læknir á Landspítala sem starfar að tæknifrjóvgunum. Aðspurður sagði hann að ekki tíðkaðist að auglýsa eftir konum sem tilbúnar væru að gefa egg sín til tæknifrjóvgana. Einnig svaraði hann því ákveðið neitandi að greitt væri fyrir egg sem fengin væru til aðgerðanna. Hins vegar lýsti hann því sem einu helsta vandamálinu við tæknifrjóvgun hér á landi að ekki fengjust nægilega mörg egg gefins til að anna eftirspurn. Ætla mætti að minnst þyrfti á annað hundrað eggja til að það næðist! Og hver ætli sé nú lausnin á því?