Fimmtudagur 9. desember 1999

343. tbl. 3. árg.

Biðraðir voru eitt helsta einkenni Ráðstjórnarríkjanna í hugum Vesturlandabúa en fyrirbærið gat oft að líta í sjónvarpsfréttum áður en múrarnir féllu. Þannig stóð fjöldi fólks í biðröð fyrir utan þá skóbúð sem hafði fengið vörusendingu þann daginn og allir skórnir seldust upp, þó þeir væru allir af sömu stærð og kannski allir á hægri fót. Neytendurnir einfaldlega keyptu það sem til var og reyndu svo að hafa upp á þeim sem annaðhvort, pössuðu í skóna eða áttu samskonar skó á vinstri fót nema hvorttveggja væri. Þannig rötuðu skór, nægjanlega stórir, á báða fætur fólks í ráðstjórnarríkjunum fyrir tilstilli hins svarta markaðar og þrátt fyrir ónýtt framleiðslukerfi stjórnvalda. Verkaskipting markaðarins endurspeglaðist í því að þeir sem höfðu nægan tíma (og nægjanlegt þol gegn kulda) biðu í biðröðum og seldu síðan öðrum varninginn.

Eitt af því sem markaðurinn hefur umfram miðstýrt áætlanakerfi er einmitt útbreiðsla upplýsinga. Á markaðnum tala neytendur og framleiðendur saman á tungumáli sem heitir verð og skilst um víða veröld. Þannig fá framleiðendur t.d. upplýsingar um hvaða vöru eigi að framleiða, hvenær og hvernig. Biðraðir af því tagi sem tíðkaðist í Ráðstjórnarríkjunum hafa því tekið æ minna pláss í sjónvarpsfréttum samhliða því að oki jafnaðarstefnunnar hefur verið létt af fólki og frjáls markaður tekið við. Biðraðirnar eru þó ekki allar jafn sýnilegar, og á Íslandi eru enn til biðraðir, nákvæmlega sömu gerðar og sýndar voru í sjónvarpsfréttum á tímum Ráðstjórnarríkjanna. Þessi íslenska útgáfa biðraðanna gengur undir nafninu biðlistar, ýmist eftir aðgerðum eða leguplássi en alltaf í „heilbrigðisþjónustunni“. Þannig verður fólk að bíða eftir mjaðmaliðarskiptum í fleiri mánuði, nema heilbrigðisráðherra detti í hug að stytta biðlista eftir þeim aðgerðum og lengja þá um leið biðlista eftir öðrum aðgerðum. Þessar biðlistabiðraðir eru jafnvel verri en biðraðir eftir skóm nr.43 á hægri fót vegna þess að það er bannað að stunda viðskipti með vöruna. Það er semsagt ekki einu sinni til svartur markaður eins og í Ráðstjórnarríkjunum forðum og það er meira að segja næstum því bannað að nefna markaðinn í sömu andrá og heilbrigðisþjónustuna nema í Vef-Þjóðviljanum.

Bók Guðna Th. Jóhannessonar, Kári í jötunmóð, varpar enn frekar ljósi á þá blindgötu sem ríkisrekið heilbrigðiskerfi fetar. Guðni bendir t.d. á að Kári Stefánsson hafi mælt fyrir gagnagrunni á heilbrigðissviði meðal annars með eftirfarandi orðum: „…að fyrirbyggjandi læknisfræði, sem raunverulega virkt tæki til þess að hafa áhrif á kostnað í heilbrigðisþjónustu og til þess að hafa áhrif á áherslur í heilbrigðisþjónustu, hlýtur að byggja á aukinni þekkingu á því hvernig arfgengir þættir koma inn í myndun sjúkdóma.“ Þannig leika Kári, heilbrigðisráðuneytið, verkalýðsfélög lækna og annarra heilbrigðisstétta og stjórnmálamenn þann leik að vera sífellt að finna upp ný „raunverulega virk tæki“ til að hafa áhrif á kostnað og áherslur í heilbrigðisþjónustu og eina reglan í leiknum er sú að það er bannað að segja „markaður“.