Segja má að það sé í tísku að vera á móti verksmiðjum sem spúa út hvers kyns viðbjóði um skorsteina og frágangspípur. Sjaldan heyrist þó hósti eða stuna yfir frárennsli frá einni af afkastameiri verksmiðjum sem Íslendingar eiga. Fabrikka þessi er vafalaust einn helsti hemill frjálsra viðskipta og þar með framfara í landinu, auk þess sem afurðir hennar eru sérstaklega til þess fallnar að hýrudraga landsmenn og eyða ránsfengnum í óþarfa. Nú er svo komið að Alþingi framleiðir árlega vel á annað hundrað lög um flest svið mannlegrar háttsemi. En þar er ekki látið við sitja í menguninni. Á grundvelli þessara afurða situr svo óvígur her í tylft ráðuneyta og eys út reglugerðum í gríð og erg. Nú er svo komið að á árinu 1999 einu hafa þegar verið birt um 800 stjórnvaldsfyrirmæli af ýmsum toga í B-deild stjórnartíðinda. Nýjasta hefti þessarar útgáfu barst landsmönnum um daginn og innihélt hvorki meira né minna en 26 nýjar ráðuneytisafurðir. Það er ef til vill kaldhæðnislegt að þessi síðasti útblástur skuli eingöngu innihalda reglugerðir um mengun og umhverfismál. Spyrja mætti hvort möppudýrunum hafi yfirsést eigin framleiðsla þegar þau sömdu reglugerðir nr. 805/1999 um úrgang, nr. 806/1999 um spilliefni eða nr. 807/1999 um brennslu spilliefna eða hvort þau hafi sótt um leyfi skv. reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun?
Nafn- og myndbritingar af grunuðum í sakamálum hafa færst í vöxt að undanförnu. Ásgeir Friðgeirsson ritstjóri Vísis.is og Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur voru til viðtals um það á Bylgjunni í gær hvort það væri eðlilegt að fjölmiðlar birtu nafn ásamt mynd af grunuðum sakamönnum. Sem kunnugt er hefur DV verið afar iðið við það undanfarið að birta myndir af grunuðum ásamt myndum og lýsingum á heimilum þeirra, vinnustöðum og einkabílum. Vísir hefur iðulega fylgt í fótspor DV og birt sömu fréttir með sömu myndum. Helsta réttlæting Ásgeirs á þessu framferði Vísis er að DV hafi þegar verið búið að birta viðkomandi fréttir! Það örlar sem sé ekki á sjálfstæðri hugsun á Vísi. Ásgeir fullyrti einnig að enginn hefði gert athugasemdir við þennan fréttaflutning þar til ákveðinn maður var handtekinn. Sömu fullyrðingu hefur Óli Björn Kárason ritstjóri DV notað blaði sínu til málsbóta. Þetta er hins vegar rangt hjá ritstjórunum. Gagnrýni á þessa lágkúru var komin fram áður en þessi tiltekni maður var handtekinn og sviptur mannorði sínu á síðum DV og Vísis.
Kristrún Heimisdóttir varaði hins vegar við því að fjölmiðlar gerðust dómarar í málum sem þessum áður enda lægju málsatvik ekki fyrir, hvað þá að dómur hefði verið upp kveðinn. Ásgeir taldi hins vegar ekkert að því þar sem fjölmiðlar væru alltaf að taka sér dómaravald með því að ákveða hvaða mál fengju umfjöllun og hvernig umfjöllun. Það er áhyggjuefni að ritstjórar öflugra fjölmiðla á borð við Vísi og DV skuli ekki gera greinarmun á því þegar umfjöllun um fólk getur svipt það ærunni og annarri umfjöllun um menn og málefni. Við þessu er hins vegar ekkert að gera – nema gagnrýna þessi vinnubrögð.