Óli Björn Kárason ritstjóri DV gerði haustskýrslu Seðlabankans að umfjöllunarefni í Laugardagspistli í blaði sínu um helgina. Þar segir Óli Björn: „Það er hreinn misskilningur ef menn halda að það sé sérstakt afrek að skila umtalsverðum afgangi á ríkissjóði um þessar mundir. Fjárlög fyrir yfirstandandi ár gerðu ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs næmu 185 milljörðum króna en útlit er fyrir að tekjurnar verði 10 milljörðum meiri. Tekjuaukann hefur ríkissjóður nýtt til að efla gleðskapinn enn frekar og útgjöld sem áttu að nema á þessu ári rúmum 182 milljörðum stefna í rúma 187 milljarða. Þannig hefur lausungin fengið að ráða ferðinni.“ Hér víkur Óli Björn að máli sem veldur vissulega áhyggjum. Útgjöld ríkissjóðs þenjast út í góðærinu. Þar með er minna svigrúm til greiðslu skulda og skattalækkana. Þegar niðursveifla verður í efnahagslífinu sitja skattgreiðendur uppi með þessi útgjöld og fá vafalaust að kenna á skattahækkunum til að standa undir þeim. Þá verður því borið við að hækka þurfi skatta til að standa undir útgjöldum.
„Staðreyndin er því miður sú að ríkissjóður nýtir ekki það fjárhagslega svigrúm sem góður hagvöxtur hefur gefið til að efla þjóðhagslegan sparnað eins og nauðsynlegt er. Og þó sérfræðinga Seðlabankans langi mest til að hækka skatta er miklu skynsamlegra að nýta möguleikana sem fyrir hendi eru til að örva frjálsan sparnað enn frekar með víðtækum skattalegum aðgerðum, samhliða umfangsmikilli einkavæðingu ríkisfyrirtækja.“ sagði Óli Björn einnig í grein sinni. Vef-Þjóðviljinn tekur undir þessi varnaðarorð ritstjórans til ríkisstjórnarinnar þótt hann hafi efasemdir um sérstakar skattalegar aðgerðir til að örva ákveðin form sparnaðar. Almennar skattlækkanir eru líklegri til að stuðla að reglulegum sparnaði til frambúðar. Það á ekki segja fólki að spara eða lokka það til þess heldur þarf fyrst og fremst að gefa því kost á því spara. Til þess þarf ráðstöfunarfé fólks að aukast og ráðstöfunarfé stjórnmálamannanna að minnka.