Þegar ný ríkisstjórn tók við völdum í Suður-Afríku fyrir fimm árum var landbúnaðarkerfið þar með svipuðum hætti og hér á landi að því leyti að bændur voru háðir ríkinu og stunduðu framleiðslu sína í skjóli þess. Tveimur árum síðar, árið 1996, voru sett ný lög þar sem dregið var mjög úr stuðningi ríkisins við landbúnaðarframleiðsluna. Eftirlitsráð sem fylgdust með framleiðslu, verðlagningu, dreifingu og útflutningi á landbúnaðarafurðum voru lögð niður og verulega var dregið úr skattfríðindum og niðurgreiðslum. Aðlögun bænda að þessum nýju aðstæðum hefur verið mjög hröð, þó hún hafi vitaskuld einnig verið erfið, sérstaklega fyrir þá bændur sem höfðu minnstu eða verstu jarðirnar. Hugsunarháttur hefur gerbreyst og bændur beita nú nýjum aðferðum og verður mörgum vel ágengt. Í stað þess að treysta á að ríkið gæti þeirra haga þeir nú rekstri sínum með sama hætti og aðrir atvinnurekendur, þeir færa út kvíarnar þar sem kostur er, breyta rekstrarformi ef ástæða er til og beita áhættustýringu, svo nokkuð sé nefnt. Neytendur hafa einnig ábata af þessum aðgerðum, en verð landbúnaðarafurða hefur farið lækkandi síðustu árin, en hafði farið hækkandi áður en framleiðslan var gefin frjáls.
Nýja-Sjáland hefur gengið í gegnum lengri markaðsaðlögun. Þar hófust stjórnvöld handa við það um miðjan síðasta áratug að breyta landbúnaðarkerfinu, en það var þá komið í alger þrot. Markaður þess á Bretlandi hafði hrunið, en ný-sjálenskir bændur héldu þó áfram að framleiða óbreytta vöru. Stuðningur við landbúnaðinn var sífellt aukinn, en það varð aðeins til þess að framleiðslan varð enn fjarlægari því sem neytendur vildu. Stuðningur ríkins dugði ekki til að vinna nýja markaði og að lokum varð stjórnvöldum ljóst að gera þyrfti grundvallarbreytingu á landbúnaðarkerfinu.
Breytingin á landbúnaðinum í Nýja-Sjálandi gerðist hratt og hefur hún orðið mikil. Nú framleiða bændur það sem neytendur vilja kaupa og selja afurðirnar á heimsmarkaðsverði. Nýting aðfanga í landbúnaði hefur batnað og áhættustýring er betri en áður. Bændur eru auk þess betur í stakk búnir til að bregðast hratt við breyttri hegðun neytenda. Þetta er nauðsynlegt, þar sem framleiðendur geta ekki selt vörur sínar nema neytendur vilji kaupa þær. Þetta er vissulega einföld staðreynd, en virðist þó ekki vel þekkt meðal þeirra sem stýra landbúnaðarmálum í heiminum.
Að þessu leyti er Ísland engin undantekning. Hér er hinn svokallaði hefðbundni landbúnaður bundinn í klafa ríkisafskipta og bændur sem hann stunda hafa ekki réttar forsendur til að vinna út frá. Hér gilda markaðslögmálin ekki í landbúnaði, enda kvarta margir bændur sáran undan slæmum kjörum. Í stað þess að losa bændur undan kerfinu er gerður búvöru„samningur“ á nokkurra ára fresti, sem viðheldur núverandi ástandi og kemur þar með í veg fyrir að hér geti orðið blómlegur og arðbær landbúnaður. Bændaforystan hagar sér líkt og aðrar sambærilegar stofnanir og berst gegn nauðsynlegum breytingum. Þær breytingar yrðu mörgum bændum erfiðar, um það þarf ekki að efast, en óbreytt ástand er þeim einnig erfitt. Kosturinn fyrir bændur við að gera breytingar er hins vegar sá að með þeim mundu þeir sjá út úr erfiðleikunum og gætu á nokkrum árum komist í gegnum þá.
Í lok þessa mánaðar hefst þriðja ráðherraráðstefna Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í Seattle í Bandaríkjunum. Þar verður meðal annars tekist á um viðskipti með landbúnaðarafurðir og stuðning við landbúnað. Mikilvægt er að þar verði samþykkt að draga úr stuðningi hins opinbera við landbúnað til að hann geti farið að þróast með eðlilegum hætti og orðið að öflugri atvinnugrein um allan heim.