Ríkisstarfsmenn lenda oft í sjálfheldu sérhagsmuna. Stofnunin sem þeir vinna hjá verður aðalatriðið en ekki sú þjónusta sem hún veitir. Velferð kerfisins verður aðalatriðið en velferðin sem kerfið á að skila aukaatriði. Einn af deildarstjórum Ríkisútvarpsins sendi í vikunni tölvupóst til allra starfsmanna RÚV og hvatti þá til að taka þátt í atkvæðagreiðslu á vef Vísis.is. Þar er spurt hvort skattgreiðendur eigi að standa undir kostnaði vegna ríkisútvarps. Starfsmenn RÚV eru um 340 svo að þátttaka þeirra getur gert útslagið í könnunum af þessu tagi.
Annar deildarstjóri Ríkisútvarpsins sendi frá sér lesendabréf í DV í gær þar sem hann „útskýrir“ hvers vegna starfsmenn Ríkisútvarpsins eru undanþegnir greiðslu afnotagjalda þótt það sé skýrt kveðið á um að allir eigendur viðtækja eigi að greiða gjöldin. Skýringarnar sem deildarstjóri innheimtudeildar RÚV gefur á þessu eru tvær. Annars vegar hafi ráðherra fyrir rúmum tuttugu árum veitt starfsmönnunum undanþágu með bréfi og hins vegar séu ákvæði um þetta í kjarasamningum sumra starfsmanna RÚV. Það er alvarlegt að deildarstjóri innheimtudeildar í stórri ríkisstofnun skuli telja að bréf frá ráðherra og kjarasamningar geti veitt undanþágu frá lögum. Væri það eðlilegt að mati deildarstjórans að fjármálaráðherra ritaði bréf til ákveðins fyrirtækis og felldi niður bifreiðagjöld af starfsmönnum þess? Gæti fjármálaráðherra samið um það við starfsmenn ríkisstofnunar að þeir þurfi ekki að greiða tekjuskatt? Þessi deildarstjóri stjórnar einnig njósnasveit sem fer um landið og gægist á glugga hjá fólki og freistar inngöngu á heimili fólks. Hann sendir einnig út bréf til almennings með spurningum um heimilishagi. Í bréfinu er því hótað að gripið verði til frekari aðgerða gegn viðkomandi ef hann svarar ekki bréfinu.