Föstudagur 19. nóvember 1999

323. tbl. 3. árg.

Í Viðskiptablaði vikunnar var rætt við Davíð Oddsson forsætisráðherra. Davíð nefnir að innheimta afnotagjalda Ríkisútvarpsins geti vart staðist þar sem það eigi ekki að gera það að skilyrði fyrir því að menn geti nýtt sér þjónustu fyrirtækja úti í bæ að þeir geri fyrst upp við ríkisfyrirtæki. Er þá vísað til þess að menn geta samkvæmt lögum ekki horft á útsendingar einkarekinna sjónvarpsstöðva án þess að greiða fyrst afnotagjald til RÚV. Í vikuritinu Vísbendingu er líka bent á að samkvæmt könnunum horfi menn mismikið á RÚV eftir aldri. Þannig horfi eldra fólk meira á RÚV en það yngra. Unga fólkið er því samkvæmt því að niðurgreiða sjónvarpsefnið fyrir eldra fólkið.

Í viðtalinu nefnir forsætisráðherra að sér þyki helst til lítil samkeppni milli olíufélaganna hér á landi. Hér hlýtur forsætisráðherra að vísa til verðs á eldsneyti enda er augljóslega mikil keppni milli olíufélaganna í sölu á ýmsum smávarningi og þjónustu við bíleigendur. En er lítil verðsamkeppni í bensínsölu milli olíufélaganna? Í Reykjavík munar um 5 krónum á hæsta og lægsta verði á bensíni. Það er  6-7% af útsöluverði bensíns og þykir ef til vill ekki mikill munur. Þó er það töluverður munur þegar haft er í huga hve einsleit þessi vara er. Allir sem selja bensín eru að selja það nákvæmlega sama. Það er því ekki um það að ræða að einhver geti boðið lakara bensín á lægra verði. Ef að forsætisráðherra þykir 6-7% munur á útsöluverði bensíns ekki nægur munur getur hann beitt sér fyrir lækkun á bensínsköttum. Ef að ríkið tæki ekki til sín um 70% af bensínverði myndu þessar 5 krónur sem munar á hæsta og lægsta verði vera mjög stór hluti bensínverðs, eða um 20-30%. Það er hreint ekki víst að slíkur verðmunur finnist á nokkurri sambærilegri vöru þegar tekið hefur verið tillit til skatta.

Nú er útlit fyrir að Alþýðulýðveldið Kína geti orðið aðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni áður en langt um líður. Þó eru enn ljón á veginum. Nokkur ríki eiga eftir að samþykkja aðildina, en það sem gæti þó frekar þvælst fyrir samningnum er að Bandaríkjaþing á eftir að samþykkja hann og gæti hann orðið þrætuepli í forsetakosningunum sem framundan eru þar í landi. Auk þess mun kommúnistastjórnin í Beijing þurfa að gera ýmsar breytingar innanlands til að ríkið geti orðið aðili. Hingað til hefur hugtakið réttarríki ekki verið hátt skrifað hjá stjórnarherrunum og eignarréttur nýtur ekki þeirrar verndar sem eðlileg er talin.

Takist að lagfæra þessa hluti er heldur bjartara framundan í þessu svokallaða alþýðulýðveldi og aukin viðskipti og breytt viðhorf meðal Kínverja, en þetta eru tvær líklegar jákvæðar afleiðingar samningsins, gætu orðið til þess að stjórnmálaástandið tæki einnig breytingum, en það er nú fullkomlega óviðunandi. Sem dæmi um ástandið í mannréttindamálum má nefna að nú þegar heimsókn framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til Beijing er lokið mun kommúnistastjórnin láta handtaka hundruð félagsmanna í hinni andlegu hreyfingu Falun Gong, en þeim handtökum var frestað fram yfir heimsóknina. Auk þess voru fjórir af stofnendum Lýðræðisflokks Kína settir í 5-11 ára fangelsi fyrr í mánuðinum fyrir andóf gegn stjórnvöldum. Það er því enn full ástæða til að hafa vara á sér í samskiptum við stjórnvöld í Beijing og gleyma því ekki hvers eðlis þau eru. Á sama tíma er hins vegar rétt að fagna auknum viðskiptum og samskiptum við hinn almenna Kínverja.