Vef-Þjóðviljinn hefur oft gert athugasemdir við ríkisstyrki til menningarstarfsemi. Þeir eru óréttlátir gagnvart skattgreiðendum sem eiga að velja sjálfir hvaða menningu þeir vilja styrkja og njóta. Styrkirnir eru ekki síður óréttlátir gagnvart þeim listamönnum sem njóta ekki slíkra styrkja. Gunnar Smári Egilsson rithöfundur sendi Samkeppnisstofnun kvörtun í desember árið 1996 vegna úthlutunar úr Launasjóði rithöfunda. Bað hann stofnunina að kanna hvort lög um Launasjóð rithöfunda stangist á við anda samkeppnislaga. Í stuttu máli sagt komst Samkeppnisstofnun að þeirri niðurstöðu að rithöfundalaunin falli utan samkeppnislaga. Helsti rökstuðningur stofnunarinnar var sá að rithöfundalaunin væru bara launagreiðsla til rithöfunda en ekki greiðsla fyrir ákveðin rit höfunda!
Á máli Samkeppnisstofnunar hljóðar þetta svo: „Tímabundin greiðsla Launasjóðs rithöfunda til höfunda felur ekki í sér endursölu þeirra á ákveðnum ritverkum heldur er um að ræða styrk eða laun án ákveðins endurgjalds í formi þjónustu eða réttinda. Þar með má draga þá ályktun að listamannalaun falli ekki undir ákvæði samkeppnislaga.“
Þetta er kostulegur málflutningur. Hvað ef kaupmaður fengi ríkisstyrk úr Launasjóði kaupmanna? Gæti Samkeppnisstofnun ekki réttlætt hann með sömu rökum? Styrkurinn væri bara launagreiðsla án „ákveðins endurgjalds“. Kaupmaðurinn gæti að sjálfsögðu nýtt féð í keppninni við aðra kaupmenn.
Sjálfstæðu leikhúsin, Iðnó, Loftkastalinn, Hafnarfjarðarleikhúsið, Kaffileikhúsið og fleiri hafa nú lagt fram kæru til Samkeppnisstofnunar þar sem þau telja að Leikfélag Reykjavíkur og Þjóðleikhúsið hafi nýtt opinbera styrki til „undirboða“. Bæði á aðgöngumiðaverði leiksýninga og útleigu húsnæðis. Einnig óska sjálfstæðu leikhúsin eftir hugmyndum frá Samkeppnisstofnun um hvernig megi leiðrétta þá mismunun sem felst í opinberum styrkjum til stofnanleikhúsanna. Líklega mun Samkeppnisstofnun koma sér hjá því að úrskurða sjálfstæðu leikhúsunum í vil í þessu máli alveg eins og hún gerði í máli Gunnars Smára. Stofnunin mun heldur ekki benda á þá einu leið sem liggur að því marki að öll leikhúsin standi jafnfætis þ.e. að hið opinbera hætti afskiptum sínum af leikhúsum, hætti að reka þau og styrkja.