Fulltrúar landafundanefndar kynntu í liðinni viku dagskrá afmælis landafunda Íslendinga í Norður-Ameríku. Á kynningunni kom fram að 335,6 milljónum króna verður varið til afmælisins. Á kynningunni kom einnig fram að forsætisráðherra og framkvæmdastjóri landafundanefndar reikna með að sú upphæð skili sér margfalt til baka. Þessi ummæli vekja óneitanlega nokkrar spurningar.
Ef dæmi er tekið af íslenskum verðbréfasjóðum þá skila þeir viðskiptavinum sínum alla jafna margfeldi, gjarna 1,1-1,2, af innistæðum á ári. En eitt af einkennum þessara sjóða er einmitt að þeir tilgreina ávallt hversu langan tíma tekur að ná tilteknu margfeldi. Þannig vaknar t.d. spurningin: eftir hve langan tíma kemur upphæðin sem rennur í afmælið til baka? Ef aftur er tekið dæmi af íslenskum verðbréfasjóðum þá þurfa þeir að keppa um viðskiptavini með þjónustu og umfram allt hárri og öruggri ávöxtun. Þeir þurfa því sífellt að vera vakandi fyrir betri fjárfestingarkostum til að auka ávöxtun innistæðna. Þá vaknar sú spurning hvers vegna íslenskir verðbréfasjóðir starfrækja ekki landafundanefndir.
Ef þetta fé skilar sér hinsvegar ekki til margfalt til einstakra aðila heldur til „þjóðarbúsins“ þá vaknar sú spurning hvers vegna ekki var lagt miklu meira fé í afmælið því margfalt meira en miklu meira er eins og öllum er kunnugt, miklu, miklu meira og jafnvel meira en það. Í Morgunblaðinu er haft eftir framkvæmdastjóra landafundanefndar: „Ef við verðleggjum til dæmis þá fjölmiðlaumfjöllun sem hátíðarhöldin eiga eftir að fá þá efast ég ekki um að við eigum eftir að koma út í gróða. Ég veðja á að við sjáum margfeldi þessarar upphæðar.“ Hann leggur þó ekki eigið fé í þennan einstaka fjárfestingarkost heldur fé skattgreiðenda.
Hinn margfaldi afrakstur mun væntanlega skila sér til „þjóðarbúsins“ í gegnum aukin viðskipti einhverra íslenskra fyrirtækja. Hvers vegna lögðu þessi fyrirtæki ekki fram þessar 335,6 milljónir króna? Þær skila sér jú margfalt til baka, ekki satt? Í þessu sambandi er vert að minnast þeirra sem vilja að ríkið styðji myndarlega við íslenskan kvikmyndaiðnað. Meginröksemd þeirra hefur einmitt verið sú að hver sú króna sem ríkið setur í iðnaðinn komi með sex aðrar til baka. (Þær koma að vísu flestar úr sjóðum sem skattgreiðendur annarra landa hafa lagt í.) En gefum okkur að þetta sé rétt. Er þetta svo frábært? Ef til vill í samanburði við íslenskan landbúnað. Ríkið leggur hins vegar ekkert í ýmsar atvinnugreinar en hefur miklar tekjur af þeim. Það hlýtur að teljast betri ávöxtun en vafasamar fullyrðingar um sexfalt og margfalt.