Laugardagur 6. nóvember 1999

310. tbl. 3. árg.

Sá háttur er hafður á að allir landsmenn greiða sóknargjöld, hvort sem þeir eru í sókn eður ei. Ef menn eru ekki í trúfélagi renna sóknargjöldin til Háskóla Íslands. Mörður Árnason varaþingmaður hefur lagt fram frumvarp þess efnis að þeir sem vilja ekki vera í neinu trúfélagi, til dæmis þeir sem trúa einna helst á manninn, þurfi ekki að greiða sóknargjöld. Merði þykir sem von er einkennilegt að refsa þeim sem standa utan trúfélaga með þessum hætti. Það er auðvitað furðulegt að ríkið taki að sér að innheimta félagsgjöld í trúarflokka en ef frumvarp Marðar nær fram að ganga verður að minnsta kosti stigið skref í rétta átt og hætt að refsa fólki fyrir að vera ekki í sókn.

Þetta ágæta frumvarp Marðar er fyrsta lífsmarkið með þingflokki Samfylkingarinnar frá því í kosningum í vor. Það er því ekki að undra þótt annar varaþingmaður Smafylkingarinnar Björgvin G. Sigurðsson hafi lagt fram fyrirspurn til dómsmálaráðherra um mannshvörf á Íslandi frá 1944 um leið og hann settist á þing í vikunni. Verða svör dómsmálaráðherra vonandi til þess að upplýsa hvar þingmenn Samfylkingarinnar eru niður komnir og hvert kjósendur hennar hafi farið þ.e. þeir sem skiluðu sér á annað borð í kosningunum í vor.