Við lifum á tímum stjórnsýslulaganna. Nú telja menn að aldrei megi láta sér nægja að óskráðar reglur gildi á nokkru sviði en allt skuli leyst með yfirgripsmiklum „almennum reglum“, jafnvel „heildarlögum“. Nýir ráðherrar taka andköf ef þeir komast að því að á nokkru sviði, sem undir þá heyrir, „skortir heildarlög“. Eru þeir þá yfirleitt fljótir að sanna dugnað sinn og fagleg vinnubrögð, skipa starfshóp – nú er allt gert í starfshópum – og málinu er bjargað.
Í nýlegu Fréttabréfi menntamálaráðuneytisins segir frá því að það er loksins búið að setja
„Umgengnisreglur og leiðbeiningar um öryggi á sundstöðum“. Segir í fréttabréfinu að í reglunum sé „mælt fyrir um það hvernig sýnd skal aðgát og góð framganga á sundstöðum og við kennslulaugar. Reglurnar eiga í senn að minna á nauðsyn þess að hver og einn hugi að eigin öryggi og stuðla að því vinsamlegt og gott andrúmsloft ríki manna á meðal á þessum fjölförnu og vinsælu stöðum.“
Menn þurfa sem betur fer ekki að óttast að ekki hafi verið faglega staðið útgáfu reglnanna, því „nefnd sérfróðra manna á vegum menntamálaráðuneytisins vann í samvinnu og samráði við fjölmarga aðila að því að semja reglurnar“. Þessar mikilvægu reglur munu reyndar fyrst hafa verið settar árið 1994 en voru endurskoðaðar í fyrra.
Þetta er afar mikilvægt mál og ómetanlegt fyrir alla þá sem reglulega stunda hinar „fjölförnu“ sundlaugar. Staðreyndin er augljóslega sú, að þeir sem hingað til hafa ekki hegðað sér eins og menn á sundstöðum, hafa einungis gert það af því að þeir héldu að þar giltu engar reglur. Nú þegar þær hafa verið settar og kynntar með nýjum glæsilegum bæklingi sem menntamálaráðuneytið hefur gefið út, þá breytist þetta eins og hendi væri veifað.
Nú hefur Vefþjóðviljinn ekki kynnt sér hinar nýju reglur, umfram það sem segir í fréttabréfi ráðuneytisins. Engu að síður væntir hann þess að auk almennra reglna um framgöngu á sundstöðum séu þarna málsmeðferðarreglur um hvernig taka skal á því ef út af er brugðið, fyrirmæli um málefnaleg sjónarmið sem ráða skuli við stjórn sundstaða og að baðverðir rökstyðji ákvarðanir sínar, sem svo sæti kæru til ráðherra íþróttamála. Því miður er líklega ekki von til að í reglunum sé mælt fyrir um stofnun embættis Umboðsmanns sundmanna, en það er næsta skref. Róm var ekki byggð á einum degi.