Tveimur fyrirspurnum um málefni Ríkisútvarpsins var beint til menntamálaráðherra á Alþingi í gær. Annar fyrirspyrjandinn var Svanfríður Jónasdóttir sem hafði áhyggjur af kostun útsendinga hjá Ríkisútvarpinu og af því hvort menn gætu keypt sér frið fyrir óþægilegum spurningum. Hinn fyrirspyrjandinn var Kolbrún Halldórsdóttir sem hafði svipaðar áhyggjur. Hún taldi auk þess móðgun við dagskrárgerðarfólk og hlustendur að einum poppþætti skyldi hafa verið seinkað um eina klukkustund til að senda út frá opnun viðbyggingar Kringlunnar, en Kringlan mun hafa keypt auglýsingar í útsendinguna fyrir 150.000 krónur. Taldi Kolbrún auk þess einsýnt að Ríkisútvarpinu hefði hrakað mjög upp á síðkastið. Hún sagði mikilvægt að Ríkisútvarpið gæti gegnt menningarhlutverki sínu með útsendingu „menningarefnis“ Rásar 1 og „dægurmenningarefnis“ Rásar 2. (Ef ríkið hefur útsendingar á íþróttarás verður þar líklega sent út „íþróttamenningarefni“.)
Töluverð umræða varð um þessar fyrirspurnir og settu menn sig í alls konar stellingar. Mörður Árnason varaþingmaður ræddi af innlifun um „þjóðarútvarpið“ og Ögmundur Jónasson var þeirrar skoðunar að hér yrði að vera þetta útvarp og að því yrði að vera lýðræðislega stjórnað. En umræðurnar í gær á Alþingi sýndu í hnotskurn vandann sem „lýðræðislega stjórnað“ útvarp stendur frammi fyrir. Lýðræðisleg stjórnun er auðvitað pólitísk stjórnun og það er rétt hjá Ögmundi að á meðan ríkið á fyrirtækið hlýtur því að vera pólitískt stjórnað. Á meðan svo er munu þingmenn vera að velta því fyrir sér hvort dagskrárgerðin er á upp- eða niðurleið eða hvort greitt hafi verið fyrir tiltekna útsendingu, hvort poppþætti hafi verið frestað um klukkustund, hvort dagskrárgerðarmaður hafi með því verið lítilsvirtur, og svo framvegis.
Meðan á þessu stóð kvartaði tónlistarmaðurinn Bubbi yfir því að eitt laga hans skuli ekki hafa fengið spilun á Bylgjunni. Bylgjan var þeirrar skoðunar að lagið hentaði ekki vel til spilunar þar, en Bubbi talaði um Stalínisma Bylgjunnar! Þetta rataði hins vegar sem betur fer ekki inn á Alþingi enda Bylgjan í einkaeigu og engin ástæða til að taka pólitíska ákvörðun um dagskrárgerð þeirrar stöðvar. Fyrirspurnir vinstri manna sýndu hins vegar glöggt hvers vegna nauðsynlegt er að ríkið hætti rekstri fjölmiðla.