Íslenskri vinstri menn eru margir afar hneykslaðir á því þessa dagana að umræða fari fram um nýjar upplýsingar þess efnis að íslenskir vinstri menn hafi fyrr á árum þegið peningagjarfir frá glæpamönnunum sem stýrðu þrælkunarbúðunum í Sovétríkjunum. Þeir telja þessa umræðu til marks um kaldastríðshugsunarhátt. Sumir þeirra leggja fjárstuðning frá alræðisstjórninni í Moskvu að jöfnu við varnarsamstarf Íslands og annarra lýðræðisþjóða í NATO. Nafn Einars Olgeirssonar hefur sérstaklega verið nefnt í þessari umræðu enda var Einar formaður Sósíalistaflokksins og hafði mikil samskipti við ráðmenn í Kreml, fór þangað tíðum og útvegaði mönnum námsvist þar með lítilli fyrirhöfn. Í samtali við Morgunblaðið á laugardaginn lýsir dóttir Einars því yfir að það sé útilokað að hann hafi fengið fjárframlög frá Kremlverjum. Þykir henni það ljótur leikur að bendla Einar við þvílíkt og annað eins.
Einar virðist hins vegar ekki hafa verið svo viðkvæmur sjálfur. Stefán Jóhann Stefánsson fyrrum formaður Alþýðuflokksins sat undir röngum ásökunum árið 1987 um að hafa átt fundi með fulltrúum bandarísku leyniþjónustunnar í forsætisráðherratíð sinni á árunum 1947-49. Málið var kennt við norðmanninn Dag Tangen og var Einar fljótur að kveða upp sinn dóm. Hann kvaðst að því er fram kemur í Þjóðviljanum ekki hafa ætlað andstæðingum sínum svo illt og lést vera hneykslaður á öllu saman. Áreiðanleg gögn benda hins vegar til að Einar hafi haft vel yfir meðallagi mikil tengsl við Kreml. Að sögn Árna Bergmann fyrrum ritstjóra Þjóðviljans mun hann t.d. hafa verið kallaður til þegar leysa þurfti mál fyrir Árna í Sovétríkjunum sem aðeins var hægt að leysa með aðstoð Kommúnistaflokksins þar í landi.
Þetta var á þeim árum sem Árni Bergmann var fréttaritari Þjóðviljans í Sovétríkjunum. Fyrst Einar var á móti því að taka við fé frá kommúnistum í Kreml eins og dóttir hans heldur nú fram hefur hann væntanlega líka verið ósáttur við að sovéski kommúnistaflokkurinn skyldi kosta þá dvöl Árna og greiða laun hans, en frá þeim framlögum Kommúnistaflokksins er sagt í bók Arnórs Hannibalssonar sem kemur út nú fyrir jólin. Einar og aðrir íslenskir vinstri menn hafa sjálfsagt líka verið fullir hneykslunar þegar Kristinn E. Andrésson fyrrum forstjóri Máls og menningar fékk sem „baráttumaður“ greiddan styrk frá sovéska kommúnistaflokknum við starfslok árið 1972.
Ekki er enn komið í ljós hvenær sovéski kommúnistaflokkurinn hætti fjárstuðningi við íslenska vinstri menn og ef til vill mun það aldrei verða upplýst. Arnór Hanniabalsson hefur þó greint frá því að sá sjóður sem erlendir vinstri flokkar fengu greitt úr hafi ekki verið lagður niður fyrr en árið 1991, eða um leið og kommúnistar misstu völdin í Kreml. Vinstri menn hafa kosið að gefa ekkert upp um hvenær styrkirnir hættu að berast og því verður að treysta á rannsóknir skjalasafna í austri, en margt er þar enn órannsakað. Hafi styrkirnir borist allt fram á þennan áratug er skiljanlegt að þeir sem þá fengu geri allt til að það komist ekki upp. Hafi þeir hins vegar hætt að berast á áttunda áratugnum er hagsmunum íslenskra vinstri manna betur borgið með því að upplýsa um málið en halda áfram að þegja um það.
Vef-Þjóðviljinn hefur ekki þegið rússagull og verður að láta sér nægja að lifa á frjálsum framlögum.