Þriðjudagur 19. október 1999

292. tbl. 3. árg.

Í fréttum í gær var sagt frá niðurstöðu könnunar á vegum Náttúruverndarsamtaka Íslands. Í könnuninni var spurt um afstöðu fólks til „lögformlegs umhverfismats vegna Fljótsdalsvirkjunar“ og var niðurstaðan sú að 75% vildu að fram færi slíkt mat. Þetta telja samtökin mikinn sigur. En hvað sem segja má um þessa virkjun þá hefur öllum „lögformlegum“ skilyrðum fyrir henni verið fullnægt. „Lögformlegt“ umhverfismat hefur farið fram. Það er að vísu ekki það umhverfismat sem Náttúruverndarsamtök Íslands óska sér helst en „lögformlegt“ engu að síður. Náttúruverndarsamtök Íslands setja spurningu sína þannig fram að fólk hafi á tilfinningunni að verið sé að spyrja um hvort fara eigi að lögum þegar Fljótadalsvirkjun er undir. Er það sérstakur sigur að 75% aðspurðra telji rétt að fara að lögum? Er það ekki miklu frekar sigur fyrir aðdáendur virkjunar á Fljótsdal að fjórðungur aðspurðra er jafnvel til í að fara á svig við lög til að virkjunin komist á koppinn?

Samband garðyrkjubænda hefur upp á síðkastið lagt í mikinn auglýsingakostnað í því skyni að halda grænmetisverði háu á Íslandi. Eins og venjulega þegar málstaðurinn er slæmur er gripið til slæmra röksemda til að verja hann. Um helgina birti sambandið opnuauglýsingu í Morgunblaðinu þar sem bent er á þá staðreynd að dagblöð eru dýrari hér á landi en annars staðar. Mun þetta hafa átt að stinga duglega upp í þá sem gagnrýnt hafa háa tolla á innflutt grænmeti, sérstaklega DV. Það að leggja að jöfnu ólíkt verð á grænmeti annars vegar og dagblöðum hins vegar er vitaskuld alger fjarstæða og ekki boðlegt vilji garðyrkjubændur láta taka sig alvarlega. Innlend dagblöð njóta engrar verndar hins opinbera gagnvart erlendum keppinautum, hins vegar kjósa íslenskir dagblaðalesendur yfirleitt að lesa innlend dagblöð frekar en erlend þó þau kosti meira. Innlent grænmeti nýtur hins vegar mikillar verndar gagnvart erlendri samkeppni og það er aðallega þess vegna, en ekki vegna þess að íslenskir neytendur vilji endilega greiða meira fyrir innlent grænmeti, sem jafn mikið selst af innlendu grænmeti og raun ber vitni.

Við fyrrnefndan samanburð garðyrkjubænda er svo bætt þeirri kenningu að það sé liður í sjálfstæði landsins að hér sé framleitt grænmeti. Hér verði að framleiða meirihluta þess matar sem neytt er, annars sé sjálfstæðinu ógnað. Þá liggur beint við að spyrja hvers vegna ekki er nauðsynlegt að framleiða öll matvæli innanlands, því annars eru Íslendingar jú háðir öðrum þjóðum. En það hlýtur að vera fleira en grænmeti sem tryggir sjálfstæði okkar. Hvað með olíu? Ekki er gott að vera öðrum þjóðum háð með þá mikilvægu vöru. Og ef ekki finnst olía við landið sem hægt er að dæla upp á óhagkvæman hátt, hvað þá með móinn? Má ekki skapa þúsundir starfa með því að nýta þann óhagkvæma orkugjafa?