Það er gaman að fá gefins góða bók. Ekki síst ef maður hefur lítið að gera og þarf að drepa tímann. Þess vegna var fallega gert af íslenska sendiráðinu í Washington að færa William J. Clinton, forseta Bandaríkjanna, fimm þykk bindi af Íslendingasögum að gjöf, nú á dögunum. Og eins og Morgunblaðið greindi frá í risafrétt á baksíðu í gær varð forsetinn glaður við, en frétt blaðsins hófst á orðunum: Bill Clinton Bandaríkjaforseti tók í liðinni viku á móti Íslendingasögunum á ensku frá íslensku þjóðinni og sagði að hann hlakkaði til að hefja lestur þessarar dásamlegu gjafar.
Er ekki annars alveg öruggt að forsetinn hafi meint hvert orð bókstaflega? Er ekki alveg klárt að ef Clinton hefði hvorki haft áhuga né tíma til að leggjast yfir Gunnars sögu Keldugnúpsfífls og aðrar Íslendingasögur, þá hefði hann bara sagt það strax? Ef t.d. finnski sendiherrann mætir á morgun í Hvíta húsið með Kalevala í skinnbandi, er þá ekki öruggt að hann verði frá að hverfa þar sem Clinton sé að lesa annað í augnablikinu?
Kanadíski hagfræðingurinn Robert Mundell hefur verið sæmdur Nóbelsverðlaununum í hagfræði þetta árið. Það sem Mundell er líklega þekktastur fyrir í dag eru kenningar hans um hagkvæmustu stærð myntsvæðis. Það hefur m.a. oft verið vísað til þessara kenninga þegar rætt er um sameiginlega Evrópumynt.
Mundell hefur hins vegar ekki aðeins haft áhrif á umræður um gjaldeyris- og gengismál, heldur líka á skatta- og ríkisfjármál. Hann var einn af þeim sem lögðu hugmyndafræðilegan grunn að skattalækkunum Ronalds Reagans og þar með þeirri efnahagslegu velgengni sem ríkt hefur í Bandaríkjunum í um hálfan annan áratug. Þessar hagfræðikenningar hafa verið kallaðar framboðshliðar-hagfræði (supply-side economics) og Laffer-kúrfan, sem sýnir að hátt skatthlutfall dregur úr skatttekjum, og kennd er við Arthur Laffer, er eitt af þeim verkfærum framboðshliðar-hagfræðinga sem oft hefur verið notað í baráttunni fyrir lágum sköttum, sérstaklega jaðarsköttum. Sumir halda því raunar fram að Laffer-kúrfan ætti frekar að vera kennd við Mundell, því hann eigi hugmyndina að henni. Það er þó varla aðalatriðið, heldur hitt, að stjórnvöld hafi kúrfuna til hliðsjónar þegar ákvarðanir eru teknar í skattamálum.