Fimmtudagur 14. október 1999

287. tbl. 3. árg.

Viðskiptablaðið sagði frá því í gær að framlag skattgreiðenda til mjólkurframleiðslu á næsta ári verði 3950 milljónir króna. Viðskiptablaðið hefur reiknað út að niðurgreiðsla á hvern framleiddan mjólkurlítra sé um 30 krónur. Styrkur ríkisins til sauðfjárræktar verður 2215 milljónir á næsta ári. Samkvæmt Viðskiptablaðinu miðast styrkurinn við tæp 400 þúsund ærgildi. Hvert ærgildi hlýtur því 5500 krónur úr vösum skattgreiðenda. Skattgreiðendur styrkja búvöruframleiðslu því með beinum framlögum um 5805 milljónir króna á næsta ári sem gera um 86 þúsund krónur á fjögurra manna fjölskyldu. Við þetta má auðvitað bæta óbeinum styrk vegna innflutningsverndar sem er erfiðara að meta. Viðskiptablaðið vitnar til rannsóknar á vegum OECD frá 1998 sem gerir ráð fyrir að kostnaður landsmanna af landbúnaðarstefnunni sé um 16 milljarðar króna. Kostnaður fjögurra manna fjölskyldu er þá kominn í 237 þúsund krónur á ári eða 4600 krónur á viku. Ef ríkið hætti stuðningi við landbúnaðinn, felldi niður fjárframlög og verndarmúra, yrði það hin veglegasta kjarabót. Fjölskylda þarf að auka tekjur sínar um 400 þúsund krónur á ári til að ná í slíkan búhnykk.

Evrópubúar telja sig stundum hafa efni á því að gera lítið úr Bandaríkjamönnum og menningu þar vestra. Slíkar alhæfingar eru að sjálfsögðu haldlitlar. Undanfarna daga hefur verið tilkynnt um verðlaun kennd við Nóbel í ýmsum fræðigreinum. Þjóðverji hlaut verðlaunin fyrir læknisfræði, Hollendingur fyrir eðlisfræði, Egypti fyrir efnafræði og í gær hlaut Kanadamaður verðlaunin fyrir hagfræðikenningar sínar. Allir starfa þeir í Bandaríkjunum.

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðisins á sunnudag spyr höfundur þess með þjósti: „Eða – dettur nokkrum manni í hug að Korpúlfsstaðir verði rifnir?“ Áður hafði höfundurinn lýst því að hugmyndin um að breyta Korpúlfsstöðum í listasafn hefði verið „ágætlega viðráðanleg“ og einungis strandað á „skammsýni úrtölumanna og tækifærissinna“. Vilhjálmur Bjarnason rekstrarhagfræðingur leggur út af þessu í pistli í Viðskiptablaðinu í gær. Þar segir hann: „Áformin um Korpúlfsstaði voru hins vegar endaleysa og einungis viðbót við óraunhæf áform um stórbúskap á staðnum fyrr á öldinni.“ Vilhjálmur svarar einnig spurningunni um það hvort einhverjum detti í hug að rífa Korpúlsstaði með þessum orðum: „Svarið er JÁ. Pistilhöfundi dettur það í hug að rífa Korpúlfsstaði. Steypan er morkin og byggingin molnar niður af sjálfu sér.“