Talnaleikir geta oft á tíðum verið besta skemmtun. Einn slíkur leikur verður næstkomandi þriðjudag 12. október þegar Sameinuðu Þjóðirnar lýsa því yfir að mannkynið hafi náð sex milljarða markinu. Að sögn Wirtschaftswoche munu SÞ einnig nýta þann tímapunkt til að þrýsta á um kröfu sína um 5,7 milljarða Bandaríkjadala útgjöld í fjölskylduáætlun sína. Að sögn blaðsins reyna SÞ enn að halda í gamla sögu um að auðlindir jarðar séu á þrotum og að fólksfjölgun sé alvarlegt vandamál.
Þó mun það vera svo að spár SÞ um fólksfjölgun eru alltaf að dragast saman og nýjustu spárnar gera ráð fyrir að árið 2050 nái mannkynið hámarksfjölda í 8,9 milljörðum manna. Ýmsir tölfræðingar halda því aftur á móti einnig fram að hámarkið náist árið 2040 í 7,4 milljörðum manna og benda á að spárnar hafi alltaf reynst skot yfir markið. Hitt er svo annað mál að það er engin ástæða til að harma þessa fólksfjölgun því hún stafar af bættum lífslíkum, bættri heilsu og hærri aldri.
Ekki eru þó allir sammála þessu, því það hefur verið siður heimsendaspámanna í að minnsta kosti 200 ár að halda því fram að mannkynið sé að klára það sem náttúran getur boðið upp á. Enski hagfræðingurinn Thomas Malthus hélt því í þá tíð fram að mannkynið mundi alltaf þurfa að kljást við hungursneyð, því fólki mundi ævinlega fjölga hraðar en fæðuöfluninni. Paul Ehrlich, sem svokallaðir náttúruverndarsinnar hafa haldið upp á, setti fram eftirfarandi spádóm árið 1968: Barátta mannkynsins til að fæða sig er töpuð. Staðreyndin er hins vegar sú að baráttan tapaðist ekki heldur vannst og í dag er næg fæða til handa öllum og vel það. Staðbundin vandamál ofstjórnar á borð við ríkisstjórn félagshyggjumanna í Norður-Kóreu gera það hins vegar því miður að verkum að enn er til fólk sem sveltur í heiminum.
Við hinar röngu spár um fæðuskort hafa heimsendaspámenn bætt spám um að hrávörur séu að eyðast upp. Stæðist sú kenning ætti verð þessara vara að hafa farið hækkandi, en þegar litið er á verðþróun frá 1980 hefur það þvert á móti lækkað á 34 algengustu hrávörunum, að tóbaki undanskildu. Spár um nýtanlegar birgðir af olíu hafa til að mynda tvöfaldast frá því að Rómarklúbburinn sem svo var kallaður kom fram með heimsendaspá sína í biblíu heimsendaspámanna árið 1972, bókinni Endimörk vaxtarins.
En þó spádómar heimsendaspámanna hafi hingað til reynst tóm endaleysa munu einhverjir þeirra sjálfsagt skeiða fram á völlinn á nýjan leik þegar mannkynið nær opinberlega 6.000.000.000 markinu og slengja fram nýjum útgáfum af úreltum kenningum. Og það sorglega er að enn eru til fjölmiðlar sem láta hafa sig í að slá boðskapnum upp og fjalla um hann í fúlustu alvöru.