Brooklyn listasafnið í New York hefur nú til sýningar nokkur listaverk sem fara fyrir brjóstið á góðborgurum. Að því tilefni hefur borgarstjórinn rætt um að fella niður styrki til safnsins. Í Ríkisútvarpinu hér Íslandi er þetta talið til marks um einbeittan vilja borgarstjórans til skoðanakúgunar en lítið er fjallað um þá skattgreiðendur sem neyddir eru til að styrkja þessa listsköpun og ýmsa aðra.
Elizabeth Dole sem keppir nú að útnefningu Repúblíkana sem forsetaefni þeirra var spurð álits á því hvort afnema bæri styrki til safnsins. Dole taldi ekki aðeins rétt að fella þá styrki niður heldur einnig alla styrki til listasjóðsins National Endowment for the Arts.
Samgönguráðherra kom það á óvart í gær að Samkeppnisstofnun hefði bannað Flugfélagi Íslands að auka þjónustu sína við þá sem ferðast á milli Reykjavíkur og Egilsstaða. Vef-Þjóðviljanum kemur þetta ekki á óvart. Annars vegar vegna þess að með úrskurði Áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá árinu 1997 var Flugfélagi Íslands gert að bera undir undir skriffinna á Samkeppnisstofnun hugmyndir sínar um aukna þjónustu á flugleiðinni. Það var því nokkuð ljóst að þeir ætluðu sér að hafa afskipti af þjónustunni. Hins vegar hefur stofnunin sífellt verið að gerast nærgöngulli við rekstur einkafyrirtækja sem starfa á opnum markaði án nokkurra ríkisstyrkja. Áður fyrr hamlaði Verðlagsstofnun, forveri Samkeppnisstofnunar, frjálsri samkeppni með afskiptum af verðlagningu. Þetta var réttlætt með því að ríkið væri að verja neytendur. Nú hamlar Samkeppnisstofnun frjálsri samkeppni með því að skipta sér af samstarfi fyrirtækja, banna fyrirtækjum að bjóða ákveðna þjónustu og bannar jafnvel eigendum fyrirtækja að sitja í stjórnum þeirra. Þetta er réttlætt með því að ríkið sé að verja neytendur.
Á sama tíma hleður hið opinbera sjálft upp ýmsum hindrunum (auk Samkeppnisstofnunar) gegn frjálsum markaði. Samkeppni í landbúnaði er heft með háum tollum, innflutningshöftum og innflutningsbanni ef annað dugar ekki til. Ríkið rekur fjölmiðla sem standa í vegi fyrir því að hér þrífist fleiri einkareknar stöðvar. Ríkið rekur sjálft áfengisbúðir og bannar að neytendur séu upplýstir um nýjar vörur á þeim markaði með auglýsingabanni. Skólarnir eru flestir reknir af hinu opinbera. Bankarnir líka. Heilbrigðisþjónustan er á könnu ríkisins. Ríkið rekur símafyrirtæki í samkeppni við einkafyrirtæki.