Þriðjudagur 5. október 1999

278. tbl. 3. árg.

Fréttamenn á fréttastofu Stöðvar 2 skynja skatta, bætur og annað sem tengist hinu svokallaða velferðarkerfi með nokkuð undarlegum hætti. Þeir héldu því til dæmis fram með dramatískum hætti í fyrstu frétt í fyrrakvöld að ríkisstjórnin væri að „skerða“ barnabætur um 230 milljónir á næsta ári miðað við árið í ár. Þannig vill til að eftir því sem fólk hefur hærri tekjur þeim mun minni styrki vegna barneigna fær það frá öðrum íbúum landsins í gegnum ríkissjóð. Þetta fyrirkomulag er liður í margrómaðri „lífskjarajöfnun“ sem stjórnarandstöðuflokkarnir og verkalýðshreyfingin hafa barist mjög fyrir. En staðreyndin er að laun fólks í landinu hafa blessunarlega verið að hækka milli ára og þess vegna hefur þeim fækkað sem fá fullar barnabætur. Því er áætlað að útgjöld ríkisins vegna barnabóta verði minni á næsta ári en í ár, en reglur um þennan bótaflokk eru hins vegar þær nákvæmlega sömu og voru í fyrra. Sömu laun þýða sömu bætur. En fréttamennirnir láta ekki leika á sig, ríkisstjórnin er skera niður bætur til barnafólks og hananú.
Nú er atvinnuleysi undir tveimur prósentum. Við skulum vona að það minnki ekki öllu meira. Ríkisstjórnin væri þá vís til að skerða atvinnuleysisbætur svo um munar!

suj.gif (5547 bytes)
suj.gif (5547 bytes)

Stjórn Sambands ungra jafnaðarmanna sendi frá sér athyglisverða ályktun á dögunum þar sem lagt var til að ríkið seldi RÚV.  Vef-Þjóðviljinn reynir að fylgjast með öllum sameiningum á vinstri vængnum og þeim klofningi sem óhjákvæmilega virðist fylgja þeim en tapar stundum áttum. Þó telur hann líkegast að Samband ungra jafnaðarmanna tilheyri Alþýðuflokknum um þessar mundir frekar en verðandi grósku í fylkingu ungra sameiningarmanna. Eins og heyra mátti í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í gærkvöldi hefur þingflokkur fylkingarinnar ekki eina einustu verðuga hugmynd til að berjast fyrir nú í upphafi kjörtímabils. Þegar stjórnarandstöðuflokkur sýnir svo lítið áræði í upphafi kjörtímabils við hverju er þá að búast þegar nær dregur kosningum? Ungkratarnir (í Alþýðuflokknum) hafa hins vegar fundið mál sem hljómgrunnur ætti að vera fyrir. Það er að aflétta skylduáskrift að RÚV og selja stofnunina. Skylduáskriftin kostar nú um 24.000 krónur á ári. Til að eiga fyrir henni þurfa menn að vinna sér inn 39.000 krónur aukalega þar sem tekjuskatturinn tekur sitt. Ungkratarnir spyrja sem von er hvers vegna ríkið þurfi að reka fjölmiðil þegar nægt framboð er af fjölmiðlaefni.