Föstudagur 1. október 1999

274. tbl. 3. árg.

„Íslensku fíkniefnabrotamennirnir tveir sem handteknir voru í Kaupmannahöfn í gær…“. Þannig hófst frétt í Ríkisútvarpinu í fyrradag. Mennirnir voru handteknir tæpum tveimur dögum áður og voru nú komnir til Íslands. Og það var þegar búið að dæma þá. Ekki reyndar hjá þessum gömlu dómstólum heldur á fréttastofu Ríkisútvarpsins. Þetta er það sem menn nefna flýtimeðferð opinberra mála.

Meðal annarra orða, hafa menn velt fyrir sér hvað gerist ef einhverjir þessara manna, sem nú eru sagðir í gæsluvarðhaldi, grunaðir um að hafa selt fíkniefni til þeirra sem vildu kaupa þau, verða ekki sakfelldir í fyllingu tímans? Þessir menn, sem í ákveðnum tegundum fjölmiðla, hafa ítrekað verið nafngreindir, jafnvel með litmyndum af sér og löngum frásögnum af öllum sínum högum, þeir gætu nú öðlast hressilegan bótarétt á hendur þessum fjölmiðlum.

Eins og Vef-Þjóðviljinn minntist á fyrir nokkru geta stjórnmálaflokkar lögum samkvæmt þegið styrki frá fyrirtækjum og fyrirtækin dregið styrkina frá sem hver önnur rekstrargjöld. Ýmis önnur félög geta ekki nýtt sér þessa heimild. Stjórnmálaflokkur skal það vera samkvæmt lögum um tekjuskatt. Í vor bauð fylking vinstri manna fram og fóru erindrekar hennar um bæinn og báðu um fjárframlög í baráttuna. Það mun vera nokkuð ljóst að hafi þeim orðið ágengt og einhver fyrirtæki látið fé af hendi rakna eru þessi framlög ekki frádráttarbær þar sem fylkingin er ekki stjórnmálaflokkur. Um það hafa nokkrar þingkonur fylkingarinnar vitnað eins og rakið var hér í VÞ fyrir nokkrum dögum.

En þær eru ekki einar um þetta álit. Viðskiptafræðiprófessorinn Ágúst Einarsson skrifaði hinn 12. maí síðastliðinn um fylkinguna: „Það var ekki hægt að stofna flokk fyrir þessar kosningar einfaldlega vegna þess að það gekk nógu erfiðlega að koma þessu saman án þess. Alþýðubandalagið klofnaði m.a. á leiðinni. Ég er hins vegar alveg sammála þér í því að núna eftir þessar kosningar er ekki eftir neinu að bíða með að stofna flokk, m.a. til að gefa fólki aðkomu að þessari hreyfingu með félagaaðild.“ Hér talar sem sé maður sem kennir stúdentum hvernig á að reka fyrirtæki. Hann hefur það alveg á tæru að fylkingin er ekki flokkur. Það hefur því væntanlega legið alveg ljóst fyrir hjá þeim fyrirtækjum sem Ágúst á og stjórnar að þau geta ekki fært framlög til fylkingarinnar sem rekstrargjöld. Enda ekki um stjórnmálaflokk að ræða að mati þingmannanna og prófessorsins.